Handbolti

Guðjón Valur og Alexander á meðal tíu bestu „gömlu karlanna“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er enn þá á toppnum 39 ára gamall.
Guðjón Valur Sigurðsson er enn þá á toppnum 39 ára gamall. vísir/getty

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, er sjöundi besti „gamli karlinn“ í handboltaheiminum að mati Handball-Planet.com en það listar upp 30 bestu eldri leikmennina sem enn þá eru að spila.

Alexander Petersson er sæti á eftir Guðjóni Val á sama lista en þessir tveir frábæru leikmenn Þýskalandsmeistara Rhein-Neckar Löwen virðast eilífir í boltanum. Guðjón Valur er 39 ára (f. 1979) en Alexander er 38 ára (f. 1980).

Guðjón hefur um árabil verið einn fremsti handboltamaður Evrópu og einn sá allra besti í sinni stöðu en þessi magnaði hornamaður slær hvergi slöku við og var kosinn besti leikmaður fyrstu umferðar Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð.

Íslensku landsliðsmennirnir eru í góðra manna hópi en fyrir ofan þá á listanum eru Raul Entrerrios, Kiril Lazarov, Laszlo Nagy, Momir Ilic og markvarðaundrin Thierry Omeyer og Arpad Sterpik.

Guðjón Valur er elsti útispilarinn af þeim ellefu efstu á listanum en hinn fertugi Dani Michael Knudsen er í tólfta sæti. Flestir sem eru eldri en Guðjón Valur á listanum eru markverðir en alls eru ellefu markverðir á þessum topp 30 lista.

Elsti maður listans er spænski markvörðurinn José Javier Hombrados en þessi 46 ára gamli markvörður er enn í fullu fjöri í spænsku deildinni með Guadalajara þar sem hann sinnir einnig starfi forseta félagsins.

Hér má sjá allan listann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.