Eyjólfur Ásberg Halldórsson, tvítugur bakvörður, var maður leiksins með 23 stig og 78 prósenta skotnýtingu.
„Virkilega flottur þessi gaur og virðist vera kominn á einhvern stall þar sem hann getur tekið af skarið. Hann er að gera meira núna heldur en í fyrra,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson um Eyjólf og hélt áfram:
„Hann var frábær. Bjarni Guðmann [Jónsson] var frábær í þessum leik. Með góðan útlending með sér, þetta er bakbeinið í liðinu. Ef að þú ert með það í lagi og þeir eru að spila svona vel, þá lítur þetta svona út.“
Bjarni Guðmann skilaði 14 stigum í leiknum, var með 23 framlagspunkta eftir níu fráköst og 4 stoðsendingar. Kjartan Atli Kjartansson líkti Bjarna við landsliðsfyrirliðann Hlyn Bæringsson, grannvöxnum en með mikinn styrk.
„Hann getur spilað frá einum upp í fimm í vörn,“ tók Kristinn Geir Friðriksson undir. „Þetta er bara grjótharður fjósastrákur.“
Þá lofuðu sérfræðingarnir bandaríska leikmanninn Aundre Jackson og sögðu ekki koma á óvart ef hann stæði uppi sem einn besti leikmaður deildarinnar í vor.
Umræðuna í heild sinni má sjá í spilaranum hér að neðan.