Handbolti

Seinni bylgjan: „Körfuboltinn er að verða harðari íþrótt en okkar“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
S2 Sport

Olísdeildin stendur best að vígi þegar kemur að spilatíma ungra leikmanna en er hún enn grjóthörð þrátt fyrir nýja reglubreytingu?

Seinni bylgjan á Stöð 2 Sport verður með nýjan lið í vetur sem heitir „Lokaskotið“ þar sem sérfræðingarnir ræða þrjú af stærstu málum hverrar umferðar.

Í þætti gærkvöldsins tóku þeir Tómas Þór Þórðarson, Sebastian Alexandersson og Jóhann Gunnar Einarsson fyrir útlendingana í deildinni, reglubreytingar á gulum spjöldum og hvort deildin yrði jafnari en fyrirfram var talið.

Oft er fjöldi erlendra leikmanna talinn neikvæður, sérstaklega í fótboltanum er það talið neikvætt ef lið eru með of mikið af erlendum leikmönnum sem taka spilatíma af þeim ungu.

„Ég held við séum sú deild sem er hvað öflugust í að leyfa ungum leikmönnum að spila. Ég held að lið eins og Akureyri og KA hafi gert allt sem að þau gátu til þess að fá íslenska leikmenn, það gekk ekki, og þá verða þau að fá til sín erlenda leikmenn,“ sagði Jóhann Gunnar.

Gult spjald fer að verða sjaldgæfari sjón í handboltanum Vísir/Andri Marinó

Það var ný regla innleidd í Olísdeildina í vetur og voru sérfræðingarnir ekki á sömu skoðun um hana. Áður fyrr voru þrjú gul spjöld gefin áður en leikmenn fá tveggja mínútna brottvísun. Því hefur verið breytt í bara eitt gult spjald.

„Þetta fjölgar brottvísunum mikið, kannski fyrir brot sem við erum aldir upp við að sé bara gult spjald,“ sagði Sebastian.

„Við vitum það bara að það var alltaf sagt í klefanum, fyrstu tíu höfum við þrjú gul, hömrum þá og verum grófir. Nú er það ekki leyft,“ sagði Jóhann Gunnar.

„Gula spjaldið var tilgangslaust.“

Sebastian var ekki sammála Jóhanni og rifust þeir félagar aðeins um málið. „Hvar endar þetta, körfuboltinn er að verða harðari íþrótt en okkar íþrótt.“

Þessar skemmtilegu rökræður, umræðuna um erlendu leikmennina og hversu jöfn deildin er má sjá í spilaranum hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.