Viðskipti innlent

Bláa lónið í hóp stærstu hluthafa í Icelandair

Hörður Ægisson skrifar
Bláa lónið hefur bætt verulega við eign sína í Icelandair
Bláa lónið hefur bætt verulega við eign sína í Icelandair Vísir/Vilhelm

Bláa lónið hefur að undan förnu bætt verulega við eignarhlut sinn í Icelandair Group og er núna á meðal stærstu hluthafa flugfélagsins með um eins prósents hlut. Nýlegur hluthafalisti félagsins, sem ekki hefur verið gerður opinber, sýnir þannig að Bláa lónið er komið í hóp tuttugu stærstu eigenda Icelandair með um 50 milljónir hluta, samkvæmt heimildum Markaðarins. Miðað við núverandi gengi bréfa Icelandair er markaðsvirði hlutarins um 370 milljónir króna.

Bláa lónið átti í árslok 2017 tæplega 14 milljónir hluta í Icelandair Group og hefur fyrirtækið því meira en þrefaldað hlut sinn í flugfélaginu það sem af er þessu ári. Hlutabréfaverð Icelandair hefur hríðfallið síðustu misseri og mánuði og frá áramótum hafa bréf félagsins lækkað í virði um liðlega helming. Gengi bréfa félagsins, sem lækkaði um rúmlega þrjú prósent í viðskiptum í Kauphöllinni í gær, stendur núna í 7,3 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra í nærri sex ár. 
Stærsti hluthafi Icelandair er Lífeyrissjóður verslunarmanna með um 14 prósenta hlut en samanlagt eiga íslensku lífeyrissjóðirnir meira en helmingshlut í félaginu. Innlendir einkafjárfestar hafa hins vegar löngum verið hverfandi í hluthafahópi Icelandair.

Samkvæmt síðasta opinbera lista yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins, sem birtist 31. júlí síðastliðinn, var þar aðeins að finna eignarhaldsfélagið Traðarhyrnu, sem er meðal annars í eigu Samherja, með 1,7 prósenta hlut í gegnum safnreikning hjá Kviku banka.

Bláa lónið. Vísir/getty

2,7 milljarðar í verðbréfum

Vöxtur Bláa lónsins á undanförnum árum hefur sem kunnugt er verið ævintýralegur. Tekjur fyrirtækisins námu þannig rúmlega 102 milljónum evra, jafnvirði 13 milljarða króna, á síðasta ári og jukust um 25 milljónir evra á milli ára. Þá var hagnaður Bláa lónsins um 31 milljón evra á árinu 2017 og hækkaði um þriðjung frá fyrra ári. Tæplega tveir milljarðar voru greiddir út í arð til hluthafa fyrr á þessu ári.
Í árslok 2017 námu fjárfestingar Bláa lónsins samtals um 20,9 milljónum evra. Eignir í verðbréfasjóðum voru þannig um 18,7 milljónir evra á meðan bein hlutabréfaeign Bláa lónsins í skráðum félögum í Kauphöllinni nam um 2,2 milljónum evra í lok síðasta árs. Þar var fyrst og fremst um að ræða hlutabréfaeign fyrirtækisins í Icelandair Group.

Hlutafélagið Hvatning er stærsti eigandi Bláa lónsins með ríflega 39 prósenta hlut. Framtakssjóðurinn Horn II, sem er í eigu lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja og annarra fagfjárfesta, á 49,45 prósenta hlut í félaginu en Kólfur heldur hins vegar utan um 50,55 prósenta hlut í Hvatningu. Eigendur Kólfs eru Grímur Sæmundsen, forstjóri og stofnandi Bláa lónsins (75 prósent), og Eðvard Júlíusson (25 prósent). Þá á eignarhaldsfélagið Keila 9,2 prósenta hlut í Bláa lóninu en það er í meirihlutaeigu Hvatningar. Aðrir hluthafar í Keilu eru meðal annars Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi og varaformaður stjórnar Bláa lónsins, en hann er jafnframt stjórnarformaður Icelandair Group. HS Orka er næststærsti hluthafi Bláa lónsins með um 30 prósenta hlut.

Þá eiga Helgi Magnússon, stjórnarformaður Bláa lónsins, og Sigurður Arngrímsson, fjárfestir og fyrrverandi starfsmaður Morgan Stanley í London, einnig hvor um sig um 6,2 prósenta hlut í fyrirtækinu
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HEIMA
5,98
19
1.491.650
VIS
2,8
19
263.441
SIMINN
0,75
15
428.677
SJOVA
0,51
21
360.465
EIK
0,38
12
157.342

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
MAREL
-4,01
41
1.008.965
LEQ
-2,43
3
69.322
ICEAIR
-2,41
12
36.382
TM
-1,96
11
203.211
KVIKA
-1,94
7
168.078
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.