Fótbolti

„Það er erfitt að komast á HM og við förum erfiðustu leiðina“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Freyr kallar skipanir til leikmannanna á vellinum á laugardaginn
Freyr kallar skipanir til leikmannanna á vellinum á laugardaginn vísir/vilhelm

Íslenska kvennalandsliðið mætir Tékkum á Laugardalsvelli á morgun í leik sem stelpurnar þurfa að vinna til þess að halda HM draumnum á lofti.

Eftir tap gegn Þýskalandi á laugardaginn er staðan sú að Ísland þarf að fara í umspil nema Færeyingum takist að leggja Þjóðverja á morgun.

Aðeins fjögur bestu liðin í öðru sæti komast í umspilið og eins og staðan er í dag er Ísland ekki í þeim hópi. Ísland ætti að komast í umspilið með sigri á Tékkum.

„Við erum andlega tilbúin og líkamlega erum við að klára að safna orku,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson í viðtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Það er ærið, verkefnið, og við verðum klárar í slaginn. Ég á von á gríðarlega sterkum leikmönnum, mjög föstum og þær eru fljótar. Eins og ég mundi orða það eru þetta stórhættulegir andstæðingar.“

„Það er erfitt að komast á HM og við förum erfiðustu leiðina.“
 

Liðin gerðu 1-1 jafntefli ytra í október á síðasta ári.

„Við ætlum okkur á HM, við erum búnar að stefna að því í langan tíma og það breytist ekkert þótt leikurinn á laugardaginn hafi farið úrskeiðis,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir.

Sif Atladóttir lítur á björtu hliðarnar í stöðunni, nú fær hún fleiri daga með góða fólkinu í landsliðinu og kringum liðið.

En hverju eigum við von á á morgun? „Þremur stigum,“ sagði bjartsýn Sif Atladóttir.

Leikur Íslands og Tékklands er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun og hefst upphitun klukkan 14:30.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.