Erlent

Forsætisráðherra Ástralíu gefst upp á loftslagsstefnu

Kjartan Kjartansson skrifar
Staða Turnbull forsætisráðherra er talin hafa veikst eftir að hann lúffaði fyrir andófsmönnum í eigin flokki í orkumálum.
Staða Turnbull forsætisráðherra er talin hafa veikst eftir að hann lúffaði fyrir andófsmönnum í eigin flokki í orkumálum. Vísir/EPA

Orkufrumvarp Malcolms Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, sem hefði meðal annars falið í sér markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, verður ekki lagt fyrir ástralska þingið. Ástæðan er andstaða í Íhaldsflokki Turnbull sem hefur nauman meirihluta á þingi.

Áætlun Turnbull í orkumálum hefði falið í sér að losun Ástrala yrði 26% minni árið 2030 en hún var árið 2005. New York Times segir að þau markmið hafi ekki verið sérlega metnaðarfull. Til samanburðar hefur Evrópusambandið einsett sér að draga úr losun um 40% frá því sem hún var árið 1990.

Ekki reyndist hins vegar einhugur innan flokks Turnbull um loftslagsmarkmiðin. Sumir þingmenn eru taldir hafa verið tilbúnir til þess að sprengja stjórnina vegna þeirra. Turnbull ákvað því að falla frá þeim.

„Í stjórnmálum verður maður að einbeita sér að því sem maður getur náð fram,“ hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir forsætisráðherranum.

Þrátt fyrir það segir BBC að Ástralía muni ná markmiðum sínum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni sem landið skuldbatt sig til með Parísarsamkomulaginu.

Sökuð um að vera sama um loftslagsaðgerðir

Gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar eru hins vegar ekki ánægðir og telja að áströlsk stjórnvöld geri ekki nóg til að berjast gegn loftslagsbreytingum sem hafa meðal annars valdið þurrkum og fölnun Kóralrifsins mikla.

„Það eina sem þetta gerir er að staðfesta aftur að þau hafa engan áhuga á að gera neitt í loftslagsbreytingum eða Kóralrifinu mikla í rauninni,“ segir Jon Brodie, sérfræðingur í kóralrifjum hjá James Cook-háskóla.

BBC segir að pólitísk framtíð Turnbull gæti verið í hættu. Skoðanakannanir benda til þess að ríkisstjórn hans félli í kosningum og rætt er um uppreisn gegn honum í Íhaldsflokknum. Uppgjöf hans í orkumálum er talin hafa veikt stöðu hans.


Tengdar fréttir

Ástralía skraufþurr

Gríðarmiklir þurrkar hafa leikið eitt stærsta landbúnaðarhérað Ástralíu grátt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.