Körfubolti

Nowitzki framlengir við Dallas og eignar sér met

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Goðsögn
Goðsögn vísir/getty
Þýska goðsögnin Dirk Nowitzki hefur undirritað nýjan eins árs samning við Dallas Mavericks í NBA körfuboltanum en þessi 213 sentimetra hái kraftframherji hélt upp á fertugsafmæli sitt fyrr í sumar.

Nowitzki kom inn í NBA deildina árið 1998 þegar hann var valinn númer níu í nýliðavalinu af Milwaukee Bucks. Honum var svo skipt yfir til Mavericks og hefur leikið með Dallas liðinu allan sinn NBA feril.

Næsta tímabil verður hans tuttugasta og fyrsta með liðinu og er það met í NBA körfuboltanum en Nowitzki deilir nú metinu yfir lengsta ferilinn með sama liði með Kobe Bryant sem lék 20 tímabil með LA Lakers.

Nowitzki er af flestum talinn besti Evrópumaðurinn sem hefur spilað í NBA en hann hefur átt algjörlega magnaðan feril hjá Dallas Mavericks. Hann var valinn besti leikmaður deildarkeppninnar 2007 og var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígsins þegar Dallas vann NBA óvænt 2011.

Hann hefur fyrir löngu skrifað sig í sögubækurnar og verður alla tíð minnst sem eins besta, ef ekki besta, leikmanns í sögu Dallas Mavericks. Þó aldurinn sé farinn að færast yfir lék Nowitzki 77 leiki á síðustu leiktíð og skilaði tólf stigum að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×