Körfubolti

Kawhi Leonard til Raptors í skiptum fyrir DeRozan

Arnar Geir Halldórsson skrifar
San Antonio bíður DeRozan
San Antonio bíður DeRozan vísir/getty
Stærstu leikmannaskipti sumarsins í NBA körfuboltanum hafa verið staðfest þar sem San Antonio Spurs og Toronto Raptors hafa tilkynnt um skiptin.

Ofurstjarnan Kawhi Leonard og Danny Green yfirgefa San Antonio og fær liðið Demar DeRozan og Jakob Poeltl í þeirra stað frá Toronto Raptors en síðarnefnda liðið fær einnig valrétt frá Spurs.

Vart þarf að fara mörgum orðum um ágæti þeirra Leonard og DeRozan enda um tvær af skærustu stjörnum deildarinnar að ræða.

Danny Green yfirgefur nú Spurs eftir átta ára veru en þessi 31 árs gamli skotbakvörður var einn af byrjunarliðsmönnum liðsins þegar það fór alla leið og vann deildina árið 2014.

Jakob Poeltl er austurrískur miðherji og er fyrsti Austuríkismaðurinn til að leika í NBA deildinni. Hann er 213 sentimetra hár og hefur leikið tvö tímabil í NBA en hann skilaði 6,9 stigum að meðaltali í leik á síðustu leiktíð án þess að hafa byrjað leik.

 

Kawhi kvaddur
Velkominn DeRozan
Umdeild skipti
Kawhi Leonard kom lítið við sögu á síðustu leiktíðvísir/getty
Óhætt er að segja að skiptin hafi vakið mikið umtal í körfuboltasamfélaginu vestanhafs þar sem mörgum þykja þetta kaldar kveðjur frá Raptors til DeRozan en hann hefur borið liðið uppi síðan hann var valinn númer níu í nýliðavalinu sumarið 2009.

Hann hefur sýnt félaginu mikla hollustu á undanförnum árum og hefur ekki farið leynt með vilja sinn um að leika með Raptors allan sinn feril. Var hann því í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins sem eru margir hverjir bálreiðir með þessi skipti.

Ljóst er að Raptors er þar fyrir utan að taka mikla áhættu þar sem Leonard á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum og gæti þá farið frítt næsta sumar á meðan DeRozan á þrjú ár eftir af sínum samningi. Raptors vonast til að ná að nýta næstu leiktíð til að sannfæra Leonard um ágæti félagsins.

Leonard hefur ekki farið leynt með að hann vilji flytjast til Los Angeles og þá helst til að spila með LeBron James hjá Lakers.

Síðasta tímabil Leonard var hins vegar afar dapurt og lék hann aðeins níu leiki vegna meiðsla sem þóttu umdeild og voru sögusagnir á kreiki um að hann vildi hreinlega ekki spila fyrir Spurs.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×