Körfubolti

Launakostnaður Oklahoma City Thunder yfir 32 milljarða á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raymond Felton.
Raymond Felton. Vísir/Getty
Það mun kosta sitt að reka NBA-lið Oklahoma City Thunder á komandi keppnistímabili. Nýjasti samningur liðsins þýðir að liðið fer yfir 300 milljónir dollara í laun og launatengdra skatta.

Oklahoma City Thunder samdi við bakvörðinn Raymond Felton í gær og mun hann fá 2,4 milljónir dollara fyrir 2018-19 tímabilið.

Sá samningur er lítill í stóra samhenginu en nægir samt til að koma heildarkostnaði liðsins yfir 300 milljónir dollara eða yfir 32,2 milljarða íslenskra króna.





Oklahoma City Thunder er komið svo langt yfir launaþakið að eigandi þarf nú að borga jafnmikið í skatt (150 milljónir dollara) vegna brots á því og hann er að borga leikmönnum sínum í laun (150 milljónir dollara).

OKC verður fyrsta liðið í sögu NBA sem fer yfir 300 milljón dollara múrinn.

Raymond Felton heldur því áfram hjá Oklahoma City Thunder en hann passaði mjög vel inn í liðið á síðustu leiktíð og var vel liðinn í búningsklefanum. Felton var með 6,9 stig og 2,5 stoðsendingar að meðaltali á 16,6 mínútum í leik. OKC er áttunda félagið á þrettán ára ferli hans en hann hóf ferilinn mðe Charlotte Bobcats.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×