Viðskipti innlent

Dregur úr árshækkun launa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hækkun laun er mest á almenna markaðnum.
Hækkun laun er mest á almenna markaðnum. Vísir/vilhelm
Launavísitalan hækkaði um 2,3% milli apríl og maí, en hefur þrátt fyrir það lækkað nokkuð á ársgrundvelli. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár en lækkar nú niður í 6,3%. Fran kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans að meginskýringin á þessari þróun séu minni launabreytingar í maí í ár, en áfangahækkanir í almennum kjarasamningum voru í maí bæði í ár og í fyrra.

„Stóru breytingarnar á launavísitölunni koma að mestu leyti fram í sama mánuði og áfangahækkanir stóru kjarasamninganna verða. Hækkunin varð veruleg í febrúar 2015 og í mánuðina þar á eftir við upphaf kjarasamninga, svo eilítið minni í fyrra og talsvert minni nú. Fyrir utan þessar stóru áfangahækkanir hefur launavísitalan að jafnaði hækkað um 0,4% á mánuði sem skýrist af samningsbundum hækkunum annarra hópa og launaskriði,“ segir í Hagsjánni.

Þar er jafnframt tekið fram verulega hafi hægt á aukningu kaupmáttar launa frá því sem mest var og að kaupmáttur hafi verið nokkuð stöðugur frá því um mitt ár 2017. Verðlag hafi að sama skapi lækkað milli apríl og maí. Þá hækkaði kaupmátturinn hins vegar og jókst um 2,4% milli mánaða. Kaupmáttur var 4,2% meiri í nú í maí en hann var fyrir ári. Í Hagsjánni segir að frá áramótunum 2014/2015 hafi kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 24% eða tæplega 7% á ári. „Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd,“ segir þar ennfremur.

Nálgast má Hagsjá Landsbankans í heild sinni hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×