Lífið

Hætti sem lögfræðingur hjá Landsbankanum og keyrir nú um með bjór og búbblur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Guðrún Sigríður Ágústsdóttir og Dagbjört Inga Hafliðadóttir reka bílinn saman.
Guðrún Sigríður Ágústsdóttir og Dagbjört Inga Hafliðadóttir reka bílinn saman.
Búbblubíllinn er kominn til landsins en tvær vinkonur keyptu hann saman og ætla gleðja landann í sumar og jafnvel lengur.

Fjallað var um þennan skemmtilega bíl í síðasta þætti af Íslandi í dag á föstudagskvöldið.

„Þetta er bíll sem var keyptur á Ítalíu. Við létum gera hann upp í Bretlandi og hann er með fjórum dælum fyrir bjór og freyðivín,“ segir Dagbjört Inga Hafliðadóttir, einn af eigendum Búbblubílsins, en hægt er að leigja Búbblubílinn við ýmsar uppákomur, giftingar, samkvæmi og fleira. Bíllinn kemur á  viðburðinn og býður upp á gæða ítalskt freyðivín og/eða bjór á krana.

„Við erum báðar svona smjattpjöttur. Elskum mat og allt sem er gott og fallegt, og freyðivín er virkilega fallegur drykkur,“ segir Guðrún Sigríður Ágústsdóttir sem á bílinn með Dagbjörtu.

Dagbjört er menntaður lögfræðingur og vann áður hjá Landsbankanum.

„Ég sé ekki eftir því að hafa farið úr þeirri vinnu yfir í þessa. Þetta er bara geðveikt. Hugurinn minn var í freyðivíninu, ekki að skrifa einhverja leiðinlega samninga.“

Hér að neðan má sjá innslag Íslands í dag um Búbblubílinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×