Erlent

Lögmaður: Trump hefði getað skotið forstjóra FBI án ákæru

Kjartan Kjartansson skrifar
Eftir að Trump rak James Comey (t.h.) í fyrra sagði hann ástæðuna hafa verið Rússarannsókn FBI.
Eftir að Trump rak James Comey (t.h.) í fyrra sagði hann ástæðuna hafa verið Rússarannsókn FBI. Vísir/AFP

Völd Bandaríkjaforseta eru svo víðtæk að Donald Trump hefði getað skotið James Comey, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, án þess að það leiddi til þess að hann yrði ákærður. Þetta sagði lögmaður Trump þegar hann hélt því fram að ekki væri hægt að stefna eða ákæra forsetann um helgina.

Rudy Giuliani, lögmaður Trump, fór víða um bandaríska fjölmiðla um helgina með þann boðskap að lögfræðiteymi forsetans teldi að hann nyti friðhelgi frá stefnum í saksóknum, óháð sakarefninu. Sagði hann að það væri aðeins þingið sem gæti ákært forseta.

Ummæli Giuliani eru liður í baráttu Trump gegn Rússarannsókninni svonefndu sem Robert Mueller, sérstaku rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, stýrir. Hún beinist að því hvort að forsetaframboð Trump hafi átt í samráði við Rússa fyrir kosningarnar árið 2016 en einnig að því hvort að Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar þegar hann rak Comey í maí í fyrra.

Í viðtali við Huffington Post tók Giuliani öfgafullt dæmi um hversu yfirgripsmikil friðhelgi forsetans fyrir ákærum væri að hans mati.

Rudy Giuliani, lögmaður Trump, hefur sett fram kenningar um vald forseta sem lögspekingar draga verulega í efa. Vísir/AFP

„Ef hann hefði skotið James Comey, yrði hann ákærður í þinginu daginn eftir. Ákærið hann í þinginu og þá getið þið gert hvað sem þið viljið með hann,“ sagði lögmaðurinn eftir að hafa lýst því að ekki væri hægt að ákæra eða stefna forsetanum undir neinum kringumstæðum.

Þetta er ekki eina vafasama lögfræðikenningin sem Giuliani hefur sett fram undanfarna daga. Þannig lýsti hann einnig um helgina þeirri skoðun sinni að Trump hefði vald til að náða sjálfan sig ef Mueller ákærði hann. Forsetinn myndi hins vegar ekki gera það vegna pólitískra afleiðinga sem slík náðun gæti haft í för með sér.

Áður hafði tuttugu blaðsíðna bréfi lögmanna Trump til Mueller verið lekið í New York Times. Í því lýstu lögmennirnir þeirri skoðun sinni að Trump hefði ekki getað hindrað framgang réttvísinnar með því að reka Comey því forsetinn hafi óskorðað vald yfir dómsmálaráðuneytinu og öllum rannsóknum.


Tengdar fréttir



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.