Körfubolti

Durant skaut Cleveland í kaf

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Durant sækir hér að körfu Cleveland í nótt.
Durant sækir hér að körfu Cleveland í nótt. vísir/getty

Meistarar Golden State Warriors eru aðeins einum sigri frá því að sópa Cleveland Cavaliers í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar eftir 102-110 sigur í Cleveland í nótt. Staðan í einvígi liðanna er því 3-0.

Stjarna leiksins í nótt var Kevin Durant en hann var óstöðvandi. Durant skoraði 43 stig og tók 13 fráköst. Steph Curry var næstur með 11 stig og þeir Draymond Green, Klay Thompson og JaVale McGee skoruðu allir 10.

LeBron James skilaði sínu eins og venjulega fyrir Cleveland. Var með sína tíunda þreföldu tvennu í úrslitunum frá upphafi en það dugði ekki til. Hann skoraði 33 stig, tók 10 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Kevin Love næstur í liði Cavaliers með 20 stig.„Við erum með mikla dýpt og margir sem geta hjálpað okkur. Við eigum samt að tala um Kevin Durant eftir þennan leik. Þetta var ótrúleg frammistaða í kvöld,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Warriors. „Það getur enginn í heiminum sett þessi skot niður nema hann. Hann var ótrúlegur.“

Durant þurfti vissulega að bera liðið á bakinu því Curry gat ekki neitt. Hitti aðeins úr þremur af 16 skotum sínum. Hann hitti svo aðeins úr einu þriggja stiga skoti af tíu.

„Þetta er lúxusinn hjá okkur að vera með alla þessa skorara. Það geta allir átt stórleik og ef menn hitta ekki á það þá tekur bara einhver annar upp keflið. Að því sögðu var þessi frammistaða Durant lygileg. Hann hitti alltaf er okkur vantaði körfu,“ sagði Kerr kátur með sína menn.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.