Handbolti

Elvar: Gaman að taka þátt í þessu verkefni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elvar Örn Jónsson var valinn besti leikmaður tímabilsins í Olís deild karla á dögunum og hann er í 30 manna landsliðshóp sem býr sig undir umspilsleiki við Litháen um sæti á HM 2019.

Þetta er í fyrsta skipti sem Elvar er í landsliðinu fyrir keppnisleiki, hann fór með landsliðinu til Noregs í apríl og tók þátt í Gulldeildinni þar sem Ísland spilaði þrjá vináttuleiki.

„Þetta er ógeðslega gaman að vera hérna og æfa með þessum strákum sem eru að spila í atvinnumennskunni, allt annað level og ótrúlega gaman,“ sagði Elvar Örn á æfingu landsliðsins í gær.

„Það er heiður að vera valinn sem besti leikmaðurinn. Selfossliðið var mikil liðsheild og ég er heppinn að vera valinn besti og ótrúlega gaman að fá að taka þátt í þessu verkefni.“

Ísland mætir Litháen í tveimur leikjum, ytra 8. júní og í Laugardalshöll miðvikudaginn 13. júní. Á pappír á íslenska liðið að vera sterkara en farseðillinn á HM er þó ekki gefinn.

„Litháarnir eru góðir hef ég heyrt, ég veit ekki mikið um þá. Þeir eru með flottar skyttur og hornamenn og fínan línumann. Mikil spenna og ótrúlega mikilvægt að vinna þessa leiki.“

„Markmiðið okkar er að vinna þessa leiki og komast á HM, það er ekkert annað í boði fyrir okkur,“ sagði Elvar Örn Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×