Viðskipti innlent

Harpa tapað 3.400 milljónum

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Nær samfelldur taprekstur hefur verið á Hörpu frá upphafi, eða sem nemur 3,4 milljörðum króna. Fréttablaðið/Eyþór
Nær samfelldur taprekstur hefur verið á Hörpu frá upphafi, eða sem nemur 3,4 milljörðum króna. Fréttablaðið/Eyþór
Stjórnsýsla Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf., skilaði 243 milljóna króna tapi á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Samanlagt tap rekstrarfélagsins frá því Harpa hóf starfsemi árið 2011 nemur nú rúmum 3,4 milljörðum króna. Þá hefur verið tekið tillit til framlaga eigendanna, íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar, á tímabilinu upp á ríflega 8,2 milljarða króna.

Annars vegar er um að ræða alls 7,1 milljarð króna í framlag ríkis og borgar vegna fjármögnunar fasteignar og búnaðar á tímabilinu og hins vegar ríflega 1,1 milljarð í bein framlög til reksturs Hörpu, sem farið var að greiða árið 2013. Rekstrarfélagið hefur aðeins einu sinni skilað hagnaði á fyrstu sjö árum starfseminnar í Hörpu. Það var árið 2013 þegar hagnaður nam 172 milljónum.

Viðvarandi taprekstur Hörpu hefur skilað sér í neikvæðri eiginfjárstöðu félagsins. Eigið fé félagsins var neikvætt um 47,5 milljónir króna í árslok 2017. Í skýrslu stjórnar Hörpu ohf. í ársreikningnum segir að fyrirsjáanlegt sé að eigið fé muni verða sífellt neikvæðara á næstu árum þó svo að sjóðstreymi og EBITDA verði áfram jákvæð en að unnið sé að því að tryggja Hörpu eðlilegan efnahagsreikning í samstarfi við eigendur. Í maí í fyrra samþykktu ríkið og borgin að veita Hörpu 450 milljónir króna í viðbótarrekstrarframlag. Í janúar síðastliðnum var að auki samþykkt að leggja móðurfélagi samstæðunnar til 400 milljónir króna á árinu 2018.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi.
„Samþykkt eigenda leiðir til þess að lausafjárstaða félagsins er tryggð til ársloka 2018,“ segir í ársreikningnum.

Einn þeirra borgarfulltrúa sem hvað mest hafa varað við og gagnrýnt fjáraustur eigenda í Hörpu er Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hann segir að frá upphafi hafi honum þótt ljóst að forsendur fyrir byggingu og rekstri hússins hafa einkennst af óskhyggju.

„Eftir hrunið, þegar farið var af stað á ný í þetta, var fullyrt við okkur kjörna fulltrúa, undir mikilli pressu um að halda verkinu áfram, að þeir fjármunir sem hið opinbera hefði lagt til myndu duga til byggingar og reksturs. Ég taldi það ólíklegt og svo fór að það dugði ekki til. Síðan hafa verið farnir nokkrir björgunarleiðangrar með auknum viðbótarframlögum og nýjum framlögum frá ríki og borg. Og mér heyrist í dag að það sé ekki nóg og enn meira þurfi til,“ segir Kjartan, sem fyrir nokkrum árum lagði til að rekstur hússins yrði boðinn út til að ná fram hagræðingu. Húsið gæti áfram sinnt mikilvægu menningarhlutverki sínu fyrir það. En síðan hafi Harpa haldið áfram að blæða peningum.

„Þetta eru gífurlega miklir peningar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×