Handbolti

Sænska handboltagoðsögnin Magnus Wislander: „Erfiðari æfingar á níunda áratugnum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnus Wislander.
Magnus Wislander. Vísir/Getty
Púlæfingar íslenska karlalandsliðsins í handbolta undir stjórn Bogdan Kowalczyk voru þjóðþekktar á níunda áratugnum og samkvæmt helstu stjörnu gullliðs Svía á þeim tíma þá voru æfingarnar erfiðari hér áður fyrr.

Magnus Wislander hefur þjálfað hjá sænska félaginu Redbergslid frá því að hann lagði skóna á hilluna árið 2005. Hann lék sinn fyrsta leik með árið Redbergslid 1981 og hefur því verið samfellt í handboltanum í 37 ár.

Magnus Wislander var þó bara aðalþjálfari frá 2004 til 2012 en undanfarin sex ár hefur hann verið aðstoðarþjálfari liðsins. Ef einhver ætti samt að geta borið saman handboltann í dag og handboltann fyrir þrjátíu árum þá er það Magnus Wislander.

Wislander var í viðtali við Expressen og þar var hann spurður út í það að leikmenn Redbergslid liðsins í dag hafa verið að kvarta undan miklu æfingaálagi.

„Það voru erfiðari æfingar hjá okkur á níunda áratugnum. Ég er ekki að segja að þær hafi verið betri en þær voru erfiðari. Það er örugglega meiri gæði á æfingunum í dag. Í dag hlustum við líka meira á líkamann og erum fagmannlegri í æfingavalinu,“ sagði Magnus Wislander.

Magnus Wislander varð tvisvar heimsmeistari (1990, 1999) og fjórum sinnum Evrópumeistari (1994, 1998, 2000, 2002) með sænska landsliðinu en hann vann síðan þrjú Ólympíusilfur að auki (1992, 1996, 2000).

Wislander varð einnig sjö sinnum Þýskalandsmeistari með Kiel og vann sænska titilinn fimm sinnum með Redbergslid. Hann skoraði 1371 mark á tólf tímabilum með Kiel frá 1990 til 2002.

Wislander er að mörgum talinn besti handboltamaður síðustu aldar en hann fékk slík verðlaun frá Alþjóðahandboltasambandinu árið 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×