Körfubolti

Skelfilegur fyrsti leikhluti og Cleveland lent undir | Sjáðu ótrúlegan endi í Boston

Anton Ingi Leifson skrifar
James og félagar eru lentir undir gegn Indiana. Þeir þurfa að spýta í lófana.
James og félagar eru lentir undir gegn Indiana. Þeir þurfa að spýta í lófana. vísir/afp
Indiana gerði sér lítið fyrir og skellti Cleveland í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni NBA-körfuboltans en sigurinn var óvæntur. Í hinum leiknum vann Boston Milawukee í framlengingu.

Cleveland spilaði skelfilega í fyrsta leikhluta. Liðið skoraði einungis fjórtán stig, LeBron James reyndi ekki skot og ekkert gekk upp. Indiana vann leikhlutann 33-14 og var komið með vænlega forystu.

Þessa forystu lét liðið aldrei af hendi og vann að endingu með átján stiga munu, 98-80. Cleveland vann tvo leikhluta af fjórum en afar slakur fyrsti leikhluti gerði nánast út um leikinn fyrir stjörnuprýtt lið Cleveland.

LeBron James skoraði 24 stig og gaf tólf stoðsendingar en hjá Indiana var Victor Oladipo stigahæstur með 32 stig. Indiana því komið í 1-0 í seríunni.

Í hinum leik dagsins vann Boston sex stiga sigur, 113-107, á Milwaukee í lygilegum framlengdum leik.

Terry Rozier virtist hafa tryggt Boston sigurinn með þriggja stiga körfu tveimur sekúndum fyrir leikslok en Milwaukee tók leikhlé og Khris Middleton skoraði körfu lengst fyrir utan þriggja stiga línuna.

Allt jafn, 99-99, en í framlengingunni reyndust leikmenn Boston sterkari á heimavelli en leikið var í hinni frægu TD-Garden höll í Boston.

Giannis Antetokounmpo var magnaður hjá Milwaukee og skoraði 35 stig en Al Horford var fremstur meðal jafningja hjá Boston, með 24 stig.

Alls skoruðu fimm leikmenn nítján stig eða meira fyrir Boston í leiknum. Liðssigur þar á bæ en þeir eru því komnir í 1-0 í einvíginu gegn Milwaukee.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×