Körfubolti

NBA: Stórleikur Harden reddaði ísköldum Houston mönnum í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden fagnar körfu í nótt.
James Harden fagnar körfu í nótt. Vísir/Getty

James Harden og félagar í Houston Rockets eru komnir 1-0 í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en fyrsti leikurinn var allt annað en auðveldur. Oklahoma City Thunder komst líka í 1-0 þar sem Paul George átti stórleik.

James Harden skoraði 44 stig, gaf 8 stoðsendingar og hitti úr 7 af 12 þriggja stiga skotum sínum þegar Houston Rockets vann nauman 104-101 sigur á Minnesota Timberwolves.

Harden tók leikinn yfir í fjórða leikhlutanum og skoraði þá 13 stig þar af meðal annars tólf stig í röð. Harden verður nánast örugglega kosinn besti leikmaður tímabilsins og hann sýndi af hverju í þessum leik.

Houston er vanalega með mjög góða nýtingu í þriggja stiga skotum og setti nýtt met í þriggja stiga körfum á tímabilinu en fyrir utan skotsýningu Harden þá hittu liðsfélagar hans aðeins úr 3 af 25 þriggja stiga skotum sínum.

„Við vorum í vandræðum með að setja niður skotin okkar og náðum engum takti en James tók okkur á bakið,“ sagði Mike D'Antoni, þjálfari Houston.
Minnesota Timberwolves var síðasta liðið inn í úrslitakeppnina og hafði ekki leikið í úrslitakeppninni í fjórtán ár en stóð vel í liði Houston og það þrátt fyrir að ungstirni Úlfanna, Karl-Anthony Towns, hafi átt dapran leik í frumraun sinni í úrslitakeppni.

Karl-Anthony Towns skoraði aðeins 8 stig og klikkaði á 6 af 9 skotum sínum. Hann réði heldur lítið við Clint Capela hjá Houston sem var með 24 stig, 12 fráköst og 3 varin skot.


 

Paul George átti frábæran leik með Oklahoma City Thunder þegar liðið vann 116-108 sigur á Utah Jazz og komst í 1-0 í einvígi liðanna.

Paul George varð að stjörnu í úrslitakeppninni með Indiana Pacers og er greinilega maður stóra sviðsins. Hann skoraði 36 stig í leiknum og hitti úr 13 af 20 skotum sínum.

George setti nýtt félagsmet með því að hitta úr 8 af 11 þriggja stiga skotum sínum. „Hvað, hafið þið ekki öll hitti úrslitakeppnis P (Playoff P) áður,“ sagði Paul George í léttum tón við blaðamenn eftir leikinn.

Russell Westbrook var með 29 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar og þá skoraði Carmelo Anthony 15 stig.

Nýliðinn Donovan Mitchell skoraði 27 stig og tók 10 fráköst fyrir Utah Jazz en meiddist líka á tá og gat ekki klárað leikinn. Hann verður samt orðinn góður fyrir næsta leik.
Staðan í öllum einvígum í úrslitakeppni NBA 2018:

- Austudeildin -
Toronto Raptors - Washington Wizards  1-0
Boston Celtics - Milwaukee Bucks 1-0
Philadelphia 76ers - Miami Heat 1-0
Cleveland Cavaliers - Indiana Pacers 0-1

- Vesturdeildin -
Houston Rockets - Minnesota Timberwolves 1-0
Golden State Warriors - San Antonio Spurs 1-0
Portland Trail Blazers - New Orleans Pelicans 0-1
Oklahoma City Thunder - Utah Jazz 1-0

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.