Viðskipti innlent

Arctica hagnast um 212 milljónir

Hörður Ægisson skrifar
Bjarni Þórður Bjarnason, stærsti hluthafi Arctica.
Bjarni Þórður Bjarnason, stærsti hluthafi Arctica.
Hagnaður Arctica Finance á árinu 2017 nam tæplega 212 milljónum borið saman við nærri 500 milljóna hagnað árið áður. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins voru þóknanatekjur um 844 milljónir í fyrra og drógust saman um liðlega 380 milljónir. Rekstrarkostnaður var ríflega 600 milljónir og jókst um nærri tíu prósent. Eigið fé var 845 milljónir í árslok 2017 og eiginfjárhlutfallið 49 prósent. Stærstu A-hluthafar Arctica eru Bjarni Þórður Bjarnason aðstoðarframkvæmdastjóri með 50,25 prósent og Stefán Þór Bjarnason framkvæmdastjóri með 33,5 prósent.

Í október var greint frá því að Fjármálaeftirlitið hefði gert Arctica Finance að greiða 72 milljóna króna stjórnvaldssekt fyrir að hafa brotið gegn lögum um fjármálafyrirtæki og reglum um kaupaukakerfi. Þá var félaginu gert að láta af frekari arðgreiðslum til hluthafa í B-, C- og D-flokki. Arctica höfðaði í kjölfarið dómsmál til að fá ákvörðun FME hnekkt en málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok síðasta mánaðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×