Körfubolti

Stjarnan vill byggja á sínum strákum: „Þurfum að halda vel á spilunum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnar Guðjónsson við undirskriftina í dag.
Arnar Guðjónsson við undirskriftina í dag. vísir/vilhelm
Arnar Guðjónsson, aðstoðarlandsliðsþjálfari og fyrrverandi þjálfari Svendborg Rabbits í dönsku úrvalsdeildinni, skrifaði í dag undir þriggja ára samning við Stjörnuna í Domino´s-deildinni.Arnar tekur við starfinu af Hrafni Kristjánssyni sem þjálfaði liðið í fjögur ár en undir hans stjórn datt liðið út í átta liða úrslitum fyrir ÍR í síðasta mánuði.

„Þeir höfðu samband við mig á Skírdag og vildu ræða við mig. Ég kom á þriðjudagskvöldið. Við funduðum og ræddum saman og nú er ég spenntur fyrir verkefninu sem er fram undan,“ segir Arnar sem lét af störfum sem þjálfari Kanínanna síðasta vor og hefur ekki þjálfað félagslið síðan.

„Ég er bara búinn að hafa það nokkuð gott í vetur. Ég er bara búinn að vera með landsliðinu. Þetta er fyrsti veturinn í tólf ár sem ég er ekki að þjálfa félagslið. Ég ferðaðist því aðeins og fékk að skoða æfingar hjá félögum annars staðar. Það var skemmtilegt og lærdómsríkt en ég hlakka til að komast aftur á parketið,“ segir Arnar.

Arnar Guðjónsson er aðstoðarlandsliðsþjálfari.Vísir/Bára

Öflugir yngri flokkar

Þrátt fyrir dapran árangur Stjörnunnar í vetur er liðið vel mannað með öfluga yngri flokka og því spennandi tímar fram undan hjá Arnari.

„Þetta er mjög spennandi. Stjarnan sem ungmennafélag virðist mjög sterkt. Yngri flokkarnir eru mjög stórir, efniviðurinn mikill og árgangarnir stórir,“ segir Arnar.

Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, sagði á blaðamannafundinum í dag að stefnan væri að byggja á uppöldum strákum. Það er auðveldara að segja en að framkvæmda.

„Við ætlum að reyna að skoða hópinn sem er fyrir og aðeins að reyna að styrkja hann ef tækifæri gefst til. Það þarf samt að huga að innviðunum. Við erum með flokk sem varð Scania-meistari núna fyrir nokkrum dögum og svo eru rosalega stórir árgangar að koma upp,“ segir Arnar.

„Því stærri sem árgangarnir eru því meiri líkur eru á að eitthvað gott komi út úr þeim, sérstaklega ef aðhaldið er gott. Það þarf að halda vel á spilunum í gegnum allt félagið ef svona stefna á að geta gengið eftir. Það er alveg á hreinu. Við erum spenntir að láta reyna á þetta,“ segir Arnar Guðjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×