Fótbolti

Guardiola talar niður væntingarnar til Man. City

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guardiola tekur eitt skref í einu.
Guardiola tekur eitt skref í einu. vísir/getty
Man. City er á ferðinni í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld er liðið spilar fyrri leik sinn gegn Basel. Leikurinn er í Sviss.

Man. City hefur ótrúlega yfirburði í ensku úrvalsdeildinni og flugið á liðinu hefur gert það að verkum að væntingarnar í Meistaradeildinni eru einnig orðnar miklar.

City féll úr leik í 16-liða úrslitunum gegn Monaco í fyrra og Pep Guardiola, stjóri City, gerir allt hvað hann getur til að stilla væntingum í hóf.

„Ég veit ekki hvort við erum tilbúnir til þess að fara langt í keppninni. Hún er sérstök. Okkar markmið er að gera betur en í fyrra og það þýðir að komast í átta liða úrslit. Við ætlum að byrja á því markmiði,“ sagði Guardiola.

„Við erum að standa okkur betur en í fyrra. Það er ekki hægt að neita því. Þessi keppni er bara svo sérstök. Hér er liðum refsað grimmilega og öll mistök geta verið afar dýrkeypt.“

Leikurinn hefst 19.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×