Körfubolti

Einar Árni hættir í vor og Baldur tekur við

Anton Ingi Leifsson skrifar
Einar Árni á hliðarlínunni í vetur.
Einar Árni á hliðarlínunni í vetur. vísir/anton

Einar Árni Jóhannsson hættir sem þjálfari Þór Þorlákshöfn í vor eftir þrjú tímabil í Þorlákshöfn. Aðstoðarmaður hans þessi þrjú, Baldur Þór Ragnarsson, mun taka við liðinu og stýra á næsta tímabili.

Einar Árni hefur unnið frábært starf undanfarin ár í Þorlákshöfn, en liðið situr nú í níunda sæti deildarinnar og flest bendir til þess að liðið fari ekki í úrslitakeppni þetta árið. Mikil meiðsli hafa herjað á liðið og í afar fáum leikjum hefur liðinu tekist að stilla upp fullmönnuðu liði.

„Það hefur verið frábært að starfa í Þorlákshöfn og það var mjög erfið ákvörðun að afþakka framlengingu á 3ja ára samningnum sem rennur út núna í vor. Ég tilkynnti forráðamönnum Þórs mína ákvörðun um síðustu mánaðarmót til að félagið gæti farið að huga að framhaldi,” sagði Einar í samtali við Facebook-síðu félagsins.

„Mér hefur liðið afskaplega vel hjá Þór þar sem aðstæður eru frábærar og fólkið í kringum félagið einstakt. Við Baldur Þór höfum átt frábært samstarf og hann hefur haft stórt hlutverk í teyminu þessi þrjú ár sem við höfum unnið saman og ég er ánægður með að hann fái að halda áfram að byggja ofan á störf okkar og treysti ég honum til góðra verka.

„Hvað mig sjálfan varðar þá bý ég 80 km frá íþróttahúsinu í Þorlákshöfn og tveir tímar í akstri á dag rífa aðeins í til lengdar. Tíminn verður að leiða í ljós hvert næsta verkefni verður, en ég ætla að njóta lokasprettsins með strákunum”, sagði Einar Árni að lokum.

Baldur Þór er uppalinn í Þorlákshöfn og þekkir þar hvern krók og kima, en um tíma var hann fyrirliði liðsins. Hann hefur verið styrktarþjálfari A-landsliðsins, þjálfaði yngri landslið Íslands og verið yfirþjálfari Þórs sem mun halda áfram samhliða því að þjálfa liðið í Dominos-deildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.