Viðskipti innlent

Mæla með því að fjárfestar haldi bréfum í Högum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
IFS mælir með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í Högum.
IFS mælir með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í Högum. Vísir/Anton Brink
Hlutabréfagreinendur IFS meta verðmæti hlutabréfa í verslunarfyrirtækinu Högum á 37,6 krónur á hlut samkvæmt nýju verðmati sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Er það um þremur prósentum lægra en gengi bréfanna stóð í eftir lokun markaða í gær. Er mælt með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu.

IFS telur þó að virði hlutabréfa Haga sé um 44 krónur á hlut ef tekið er tillit til kaupa félagsins á olíufélaginu Olís, en þau bíða samþykkis Samkeppniseftirlitsins.

Áætla greinendurnir að virði bréfanna, að teknu tilliti til kaupanna, geti orðið 48 krónur á hlut í lok þessa árs. Er það hátt í 25 prósentum hærra en núverandi gengi bréfanna. Geta ber þess að IFS hefur ekki metið sérstaklega samlegðaráhrif kaupanna.

Í verðmatinu er þó tekið fram að samlegð félaganna geti orðið mikil og möguleikar til tekjuaukningar séu margvíslegir. Sérfræðingarnir taka sem dæmi að virði sé fólgið í lóðum Olís og þá séu staðsetningar þeirra vannýttar. Hægt væri að selja þær eða nýta á aðra vegu til þess að auka virði kaupanna enn frekar. „Við teljum einnig mun meiri samlegð í Olís en Lyfju þar sem dreifikerfi og vöruhús yrðu samnýtt og innkaup sameinuð,“ segir í verðmatinu.

Að mati greinenda IFS er nokkur óvissa um hvort Samkeppniseftirlitið leggi blessun sína yfir kaupin. Er bent á að Hagar og Olís séu stærstu félögin í sínum geira, ólíkt til dæmis 365 og Fjarskiptum sem fengu leyfi eftirlitsins til þess að sameinast á síðasta ári. Ekki sé þó ólíklegt að Samkeppniseftirlitið samþykki umrædd kaup. Til lengri tíma sé það jafnframt mögulega þjóðhagslega hagkvæmt.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×