Jólatré í janúar Kristín Ólafsdóttir skrifar 3. janúar 2018 07:00 Það er fátt jafn dapurlegt og uppstrílað jólatré inni í stofu fyrstu dagana í janúar. Einu sinni stofustáss en umbreytist í aðskotahlut á nýju ári. Týnir tilgangi sínum á einni nóttu. Ég sé sjálfa mig í þessu tré. Maður er til dæmis svolítið jólatré í janúar fyrstu dagana í ræktinni eftir langt, langt...langt... frí. Harkaleg iðnaðarlýsing og þungur daunn af svita verka letjandi. Markmiðin eru óyfirstíganleg og harðsperrurnar aftur orðnar framandi. Svo finnur maður fyrir erkitilfelli af jólatré í janúar-heilkenninu þegar sólarhringurinn er þvingaður í samt lag og vinna eða skóli hakka sig inn í rútínuna á ný. Maður er ryðgaður. Man ekki hvað maður á nákvæmlega að vera að gera. Lyppast niður í stólnum og byrjar aftur að naga neglurnar. Fingrasetning á lyklaborð lærð upp á nýtt. Greinarnar drjúpa niður í gólf. Fimmtán hnébeygjur, ekki þrjátíu eins og í nóvember, og lærin brenna í vítiseldi. Stjarnan á toppnum búin að tapa ljómanum og orðin óþolandi hallærisleg. En svo kemur þrettándinn og trénu er þrusað út, fuðrar upp í bálkesti undir fölskum söng barna með KR-húfur og bleik blys. Líf og tími líður og liðið er nú ár, og nýtt hefst og það er gott að muna að það er í lagi að taka það ekki strax með trompi. Það er í lagi að staulast ekki nema 500 metra á brettinu og þurfa sjö kaffibolla til að gefa hreinlega ekki upp öndina fyrsta vinnudaginn. Það er í lagi að leyfa sér að vera örlítið jólatré í janúar, jafnvel fram í febrúar. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Kristín Ólafsdóttir Mest lesið Er kominn tími á Útlendingafrí? Marion Poilvez Skoðun 1. maí er líka fyrir fatlað fólk! Geirdís Hanna Kristjánsdóttir Skoðun Janus og jakkalakkarnir Óskar Guðmundsson Skoðun Verkalýðshreyfingin á næsta leik í Evrópuumræðunni Dagbjört Hákonardóttir Skoðun Immigrant Women: Essential Workers, Rising Voices on Labor Day Maru Alemán Skoðun Á milli steins og sleggju Heinemann Ólafur Stephensen Skoðun Hvað ert þú að gera? Eiður Welding Skoðun Samtalið um dauðann veldur okkur óöryggi Ingrid Kuhlman Skoðun Allir eiga rétt á virku lífi — líka fatlað fólk Anna Margrét Bjarnadóttir Skoðun Myndir þú ráða fatlað fólk í vinnu? Alma Ýr Ingólfsdóttir Skoðun
Það er fátt jafn dapurlegt og uppstrílað jólatré inni í stofu fyrstu dagana í janúar. Einu sinni stofustáss en umbreytist í aðskotahlut á nýju ári. Týnir tilgangi sínum á einni nóttu. Ég sé sjálfa mig í þessu tré. Maður er til dæmis svolítið jólatré í janúar fyrstu dagana í ræktinni eftir langt, langt...langt... frí. Harkaleg iðnaðarlýsing og þungur daunn af svita verka letjandi. Markmiðin eru óyfirstíganleg og harðsperrurnar aftur orðnar framandi. Svo finnur maður fyrir erkitilfelli af jólatré í janúar-heilkenninu þegar sólarhringurinn er þvingaður í samt lag og vinna eða skóli hakka sig inn í rútínuna á ný. Maður er ryðgaður. Man ekki hvað maður á nákvæmlega að vera að gera. Lyppast niður í stólnum og byrjar aftur að naga neglurnar. Fingrasetning á lyklaborð lærð upp á nýtt. Greinarnar drjúpa niður í gólf. Fimmtán hnébeygjur, ekki þrjátíu eins og í nóvember, og lærin brenna í vítiseldi. Stjarnan á toppnum búin að tapa ljómanum og orðin óþolandi hallærisleg. En svo kemur þrettándinn og trénu er þrusað út, fuðrar upp í bálkesti undir fölskum söng barna með KR-húfur og bleik blys. Líf og tími líður og liðið er nú ár, og nýtt hefst og það er gott að muna að það er í lagi að taka það ekki strax með trompi. Það er í lagi að staulast ekki nema 500 metra á brettinu og þurfa sjö kaffibolla til að gefa hreinlega ekki upp öndina fyrsta vinnudaginn. Það er í lagi að leyfa sér að vera örlítið jólatré í janúar, jafnvel fram í febrúar. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.