Fótbolti

Milljónum rignir inn á reikning Skagamanna vegna sölu Arnórs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhannes Karl Guðjónsson fær kannski eitthvað aðeins að leika sér á félagaskiptamarkaðnum í vetur.
Jóhannes Karl Guðjónsson fær kannski eitthvað aðeins að leika sér á félagaskiptamarkaðnum í vetur. vísir/ernir
Skagamenn eiga von á myndarlegri millifærslu vegna sölu IFK Nörrköping á Arnóri Sigurðssyni til rússneska stórveldisins CSKA Moskvu, samkvæmt heimildum Vísis.

Þegar að ÍA seldi Arnór til sænska félagsins setti það klásúlu þess efnis að það myndi fá tíu prósent af næstu sölu, samkvæmt heimildum Vísis, og það er heldur betur að borga sig núna.

Talið er að kaupverðið á Arnóri séu um fjórar milljónir evra eða því sem nemur 500 milljónum íslenskra króna. ÍA á því von á allt að 50 milljónum króna sem ætti að vera góð búbót fyrir Skagamenn.

Svona upphæð gerir mikið fyrir íslensk félagslið en Skagamenn eru á toppnum í Inkasso-deildinni og eru nánast öruggir með sæti í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð.

Arnór, sem er fæddur árið 1999, spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild árið 2015 en kom svo við sögu í sex leikjum í deild og tveimur leikjum í bikar árið 2016 og gerði þar nóg til að heilla forráðamenn IFK Nörrköping.

Skagamenn hafa unnið eftir þeirri stefnu að spila á ungum og uppöldum leikmönnum og hafa nú með skömmu millibili selt bæði Arnór til Nörrköping og Tryggva Hrafn Haraldsson til Halmstad.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.