Pelicans var mest 17 stigum undir en stjörnutvíeykið í teignum hjá heimamönnum, DeMarcus „Boogie“ Cousins og Anthony Davis, settu liðið á bakið og báru það í átt að öðrum sigri New Orleans í röð. Það er nú komið upp í sjötta sætu vesturdeildarinnar.
Davis hefur verið á miklum skriði að undanförnu og skoraði 34 stig í nótt en það var Boogie sem fór gjörsamlega hamförum. Hann hlóð í rosalega þrennu með 44 stigum, 24 fráköstum og tíu stoðsendingum.
Frammistaðan var svo mögnuð að besti körfuboltamaður heims, LeBron James, sá ekkert annað í stöðunni en að hrósa miðherjanum á Twitter fyrir þessa „sjúku tölfræðilínu“ eins og LeBron orðaði það.
Yo @boogiecousins chill out man!! Sheesh!!! Super sick stat line
— LeBron James (@KingJames) January 23, 2018
Frammistaðan var söguleg því Cousins varð sá fyrsti sem skorar yfir 40 stig, tekur 20 fráköst eða fleiri og gefur tíu stoðsendingar eða fleiri síðan goðsögnin Kareem Abdul-Jabbar gerði það fyrir Los Angeles Lakers árið 1972.
Finninn Lauri Markkanen átti góðan leik fyrir Bulls en hann skoraði fjórtán stig og tók 17 fráköst en það dugði ekki fyrir Chicago sem er í basli í austurdeildinni.
Bulls er í tólfta sæti með 18 sigra og 29 töp en það er fjórum sigurleikjum frá sæti í úrslitakeppninni.
Frammistöðu Boogie Cousins frá því í nótt má sjá í myndbandinu hér að neðan.
Úrslit næturinnar:
Charlotte Hornets - Sacramento Kings 112-107
Atlanta Hawks - Utah Jazz 104-90
Houston Rockets - Miami Heat 99-90
Memphis Grizzlies - Philadelphia 76errs 105-101
Milwaukee Bucks - Phoenix Suns 109-105
New Orleans Pelicans - Chicago Bulls 132-128
Dallas Mavericks - Washington Wizards 98-75
Denver Nuggets - Portland Trail Blazers 104-101