„Forskráningar hjá Samgöngustofu hafa gengið ótrúlega hægt og hafa valdið okkur hjá bílaumboðunum og þeim sem eru að flytja inn bíla gríðarlegum töfum. Það hefur valdið því að í sumum tilvikum er forskráning bíla sem jafnan hefur tekið tvo daga að taka allt að fjórum vikum. Þetta er þó misjafnt eftir bíltegundum,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins.
„Það eru nokkrir þættir sem skýra þetta, í fyrsta lagi er mikill innflutningur í apríl og maí vegna bílaleigubíla. Einnig voru óvenju margir frídagar í apríl og maí sem hægðu á öllu. Samgöngustofa er á fjárlögum og hefur ekki náð að bæta við sig mannskap í takti við þessar auknu skráningar og umsýslu.“

Hann segir óskiljanlegt að ekki sé brugðist betur við hjá Samgöngustofu eða samgönguráðuneytinu. „Við höfum rætt við ráðherra og höfum bent á leiðir til að flýta fyrir þannig að skráningum verði komið meira í hendur umboðanna eins og er til dæmis með tollamálin.
Undanfarna 18 mánuði hafa verið töluverð samskipti við Samgöngustofu en þeir skýla sér alltaf á bak við það að þeir hafi ekki fjárheimildir til að takast á við þessi auknu verkefni og þetta er að kosta þessi fyrirtæki fullt af peningum.
Samfélagslegur kostnaður er mun hærri en sparnaðurinn fyrir ríkið. Við erum mjög ósátt með hvernig að þessum málum er staðið,“ segir Jón Trausti. Hann segir starfsmenn Samgöngustofu vera að gera sitt besta en ljóst sé að þörf sé á aukinni fjárveitingu í þennan málaflokk.