„Nýju tölurnar eru í samræmi við það sem áður hefur komið fram og staðfesta að gullið sé á svæðinu. Þarna vorum við ekki að bora heldur er þetta úr grjóti á jörðinni en með borun geturðu komist í gullæðarnar og staðfest magnið. Það myndi ekki hafa nein umhverfisleg áhrif,“ segir Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson, stjórnarformaður Iceland Resources.

Vilhjálmur Þór hefur áður sagt að hér á landi þurfi gull að mælast yfir tíu grömm í tonni svo það sé vinnanlegt. Aftur á móti geti kanadíska fyrirtækið leitað þess á mun hagkvæmari hátt en þekkist og magnið á hvert tonn geti því verið minna.
„Hér á landi eru oft há gullgildi frekar á litlum svæðum en í föstu bergi, enda gengurðu ekki fram á gullmola á Íslandi,“ segir Vilhjálmur Þór.
Jarðfræðingar á vegum Iceland Resources, sem hefur sótt um alls átta rannsóknarleyfi víðs vegar um landið, tóku á sama tíma sýni í Vopnafirði þar sem fyrirtækið hefur fengið framkvæmdaleyfi til gullrannsókna.
Einnig hefur Iceland Resources fengið leyfi til rannsókna á 1.013 ferkílómetra svæði á Tröllaskaga. Fréttastofa RÚV greindi á þriðjudag frá ákvörðun 34 landeigenda um að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Orkustofnun veitti leyfið í júlí síðastliðnum en Iceland Resources mun þar leggja sérstaka áherslu á gull og kopar. Landeigendur kvarta yfir samráðsleysi en búast ekki við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar fyrr en um mitt ár 2018.
„Þeir hafa rétt til að kæra en í raun og veru snýr kæran ekki að okkur heldur stjórnsýslulegri meðferð málsins. Okkar skoðun er að þessi kæra sé byggð á misskilningi og að við höfum ekki fengið tækifæri til að skýra okkar sjónarmið gagnvart landeigendum. Það stendur til að gera það,“ segir Vilhjálmur Þór.