Viðskipti innlent

Arion banki seldi fyrir 490 milljónir króna í Símanum

Hörður Ægisson skrifar
Arion banki var sjöundi stærsti hluthafi Símans fyrir söluna með 3,85 prósenta hlut.
Arion banki var sjöundi stærsti hluthafi Símans fyrir söluna með 3,85 prósenta hlut.
Arion banki minnkaði hlut sinn í Símanum um nærri helming á mánudag þegar bankinn seldi 150 milljónir hluta í félaginu, eða sem nemur tæplega 1,6 prósenta eignarhlut, á genginu 3,28 krónur á hlut, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Hluturinn í fjarskiptafélaginu var því seldur fyrir samtals um 490 milljónir króna en fyrir viðskiptin átti Arion banki 3,85 prósenta hlut í Símanum sem gerði bankann að sjöunda stærsta hluthafa félagsins. Kaupendur að bréfunum samanstóðu af dreifðum hópi fjárfesta og voru það markaðsviðskipti Landsbankans sem önnuðust milligöngu um viðskiptin.

Velta með bréf Símans tók mikinn kipp á mánudag þegar hún náði rétt tæpum 1,2 milljörðum króna í 45 viðskiptum. Þann dag hækkuðu þau í verði um 3,9 prósent. Reyndar var það svo að allur markaðurinn fór upp að flugfélaginu Icelandair Group undanskildu. Síminn mun kynna ársuppgjör sitt fyrir 2016 næsta fimmtudag. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×