Breska ferðaskrifstofan Super Break hefur á næstu dögum sölu á ferðum til Norðurlands með beinu flugi frá Bretlandi. Er það í fyrsta sinn sem beint áætlunarflug er milli Akureyrar og Bretlands.
Að því er fram kemur í tilkynningu verða alls 1.500 sæti í boði í janúar og febrúar í átta flugum frá átta mismunandi flugvöllum í Bretlandi. Segir að svo virðist sem áhugi Breta á Íslandi fari síst dvínandi þrátt fyrir gengisbreytingar.
„Vetrarferðamennska hefur farið vaxandi síðustu ár, enda margt spennandi sem hægt er að gera og margir staðir sem eru ótrúlega fallegir á veturna,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

