Körfubolti

Westbrook hafði betur gegn gríska fríkinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Russ ræðst gegn gríska fríkinu í nótt.
Russ ræðst gegn gríska fríkinu í nótt. vísir/getty
Það var mikil eftirvænting fyrir leik Milwaukee og Oklahoma City í nótt enda voru þar að mætast leikmenn sem eru líklegir að berjast um nafnbótina mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur.

Leikurinn var þó aldrei spennandi þar sem Oklahoma City leiddi frá upphafi og innsiglaði auðveldan sigur. Russell Westbrook þurfti aðeins að spila í 26 mínútur fyrir Oklahoma en var engu að síður aðeins einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Hann skoraði 12 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Giannis Antetokounmpo, eða gríska fríkið, átti stórleik að venju hjá Milwaukee með 28 stig þar sem hann hitti úr 9 af 14 skotum sínum. Tók líka 8 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Hann fékk aftur á móti enga aðstoð frá félögum sínum en enginn þeirra komst yfir tíu stiga múrinn.

Úrslit:

Indiana-Sacramento  101-83

Brooklyn-Phoenix  114-122

Milwaukee-Oklahoma City  91-119

LA Lakers-Detroit  113-93

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×