Viðskipti innlent

Icelandair styrkir nemendur við HÍ og HR: „Nauðsynlegt að fá ungt og hæft fólk inn í greinina“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Háskólarektorarnir Ari Kristinn Jónsson og Jón Atli Benediktsson ásamt Birki Hólm Guðnasyni framkvæmdastjóra Icelandair við undirritun samstarfssamningsins.
Háskólarektorarnir Ari Kristinn Jónsson og Jón Atli Benediktsson ásamt Birki Hólm Guðnasyni framkvæmdastjóra Icelandair við undirritun samstarfssamningsins. Aðsent
Icelandair hefur gert samstarfssamning við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavik um stuðning félagsins við nemendur skólanna, einkum meistara- og doktorsnema. Samstarfið felst í því að Icelandair leggur fjármuni til sérstakra sjóða sem eru í vörslu og umsjón skólanna. Skólarnir ráðstafa fé úr sjóðunum til verkefna sem tengjast flugi og flugtengdri starfsemi og ákveða skólarnir upphæð einstakra styrkja.

„Flugið er orðið að undirstöðuatvinnuvegi á Íslandi og Icelandair er þar leiðandi aðili. Með þessu samstarfi viljum við hvetja til aukinnar menntunnar og þekkingar á þessu sviði. Það er mikilvægt fyrir félagið og fyrir samfélagið,“ sagði Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, við undirritun samningsins. Birkir bætti því við að flugið sé í dag mikill þekkingariðnaður þar sem Ísland hafi náð frábærum árangri með mikilli uppbyggingu á undanförnum árum.

„Til að viðhalda þessum árangri er nauðsynlegt að fá ungt og hæft fólk inn í greinina. Við vonumst til að þetta samstarf verði hvatning til ungs fólks að leita sér þekkingar í þessari mikilvægu atvinnugrein.“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla fagnar þessu samstarfi og stuðningi Icelandair við skólann.

„Háskóli Íslands er alhliða háskóli og leggur áherslu á að eiga náið samstarf við íslenskt atvinnulíf.  Háskóli Íslands býður upp á fjölmargar greinar sem tengjast flugi og flugrekstri. Fjármunirnir verða nýttir til stuðnings við verkefni nemenda í doktors- og meistaranámi í þessum greinum. Þeir munu án efa nýtast vel. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Icelandair.“

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík tekur í sama streng og segir flugið hafa skipt miklu fyrir framþróun Íslands.

„Það er í dag orðið burðarás í samfélagi og efnahagslífi landsins. Háskólinn í Reykjavík hefur í mörg ár átt í góðu samstarfi við Icelandair við að efla þekkingu og menntun á sviði flugþjónustu.  Við fögnum því innilega þessu framlagi sem mun nýtast vel til að styrkja verkefni nemenda sem tengjast flugi og flugþjónustu.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×