Viðskipti innlent

Þrjár af hverjum fjórum seldust undir ásettu verði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er farið að kólna í höfuðborginni.
Það er farið að kólna í höfuðborginni. VÍSIR/VILHELM
„Áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu eftir mikla uppsveiflu fyrr á árinu,“ ef marka má nýja mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs sem birt var í dag.

Þar segir ennfremur að íbúðir seljist að meðaltali undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu jafnt sem á öðrum landsvæðum. Í september seldust 72% íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir ásettu verði. Það hlutfall hefur aukist síðustu mánuði, en í apríl seldust 54% íbúða undir ásettu verði.

Í skýrslunni kemur einnig fram að færri viðskipti hafi átt sér stað undanfarna mánuði en á sama tíma í fyrra. Þannig hafi verð í sumum hverfum höfuðborgarsvæðisins lækkað örlítið undanfarna mánuði, en það gerist í kjölfar mikilla hækkana á fyrstu mánuðum ársins.

„Tíminn milli þess sem íbúðir eru auglýstar og kaupsamningur undirritaður hefur farið minnkandi um land allt síðan 2015. Mesta breytingin hefur orðið í sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar meðalsölutími íbúða hefur lækkað úr 200 dögum í upphafi árs 2016 niður í rúmlega 50 daga um þessar mundir, sem er svipaður tími og tekur að selja íbúð á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í tilkynningu frá Íbúðalánaðsjóði.

„Leigumarkaður heldur áfram að stækka. Nýjasta mæling síðan í september sýnir að 17% þjóðarinnar er á leigumarkaði og 19% telur líklegt að vera þar eftir 6 mánuði. Flestir leigjendur vilja þó kaupa fasteign og hefur hlutfall leigjenda sem segist geta safnað sparifé farið hækkandi síðustu ár.“

Skýrsluna má nálgast með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×