Hlutur Vilhjálms í bankanum er í gegnum safnreikning Virðingar en hann keypti bréfin af fjárfestingafélaginu Siglu, sem er í eigu Tómasar Kristjánssonar og hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, fyrr í þessum mánuði. Sigla, sem var fyrir söluna einn stærsti hluthafi Kviku banka með 7,27 prósenta hlut, hefur losað um allan hlut sinn í bankanum. Aðrir kaupendur að bréfum félagsins voru meðal annars Lífsverk lífeyrissjóður, sem á núna 2,33 prósenta hlut í Kviku, auk annarra fjárfesta en hlutur þeirra eftir kaupin í bankanum er í öllum tilfellum undir einu prósenti.
Samkvæmt heimildum Markaðarins hafa bréf í Kviku að undanförnu verið að ganga kaupum og sölum á genginu 5,6 til 6,3 krónur á hlut. Sigla átti 102 milljónir hluta að nafnverði í bankanum og því má áætla að félagið hafi fengið samtals í kringum 600 milljónir króna fyrir hlut sinn í Kviku. Miðað við það er hlutur Vilhjálms í bankanum metinn á um það bil hundrað milljónir króna.

Á síðasta ári tapaði fjárfestingafélag Vilhjálms rúmlega 19 milljónum króna. Eigið fé félagsins var um 480 milljónir en Miðeind er að öllu leyti í eigu Meson Holding SA sem er skráð í Lúxemborg. Eignir félagsins samanstanda að mestu af verðbréfum en auk eignarhlutar í Kviku er Miðeind meðal annars hluthafi í vefmiðlinum Kjarnanum og Verne Holdings sem rekur gagnaver á Ásbrú.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.