Viðskipti innlent

Íslensku lífeyrissjóðirnir líti sér nær

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Fram kemur í úttekt Fossa markaða að lífeyrissjóðir ættu að líta sér nær, enda sé hlutfall innlendra hlutabréfa sjóðanna af heildareignum lágt og merki séu um yfirverðlagningu á erlendum mörkuðum.
Fram kemur í úttekt Fossa markaða að lífeyrissjóðir ættu að líta sér nær, enda sé hlutfall innlendra hlutabréfa sjóðanna af heildareignum lágt og merki séu um yfirverðlagningu á erlendum mörkuðum. vísir/anton brink
Ísland er í þriðja sæti af ríkjum OECD þegar tekið er mið af erlendum eignum innlendra lífeyrissjóða sem hlutfalli af vergri landsframleiðslu. Hlutfallið, sem er um 34 prósent, er einungis hærra í Sviss og Hollandi. Á sama tíma er hlutfall innlendrar hlutabréfaeignar sjóðanna af heildareignum lágt, eða um 12 prósent, og æ skýrari merki eru um að erlendir markaðir séu yfirverðlagðir. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri úttekt Fossa markaða.

Í úttektinni er bent á að þrátt fyrir að innlend hlutabréfaeign lífeyrissjóðanna sem hlutfall af heildareignum hafi hækkað á árunum frá falli fjármálakerfisins, þá sé hlutfallið eftir sem áður lágt þegar litið er til síðustu tuttugu ára. Sem dæmi var hlutfallið á bilinu 15 til 30 prósent á árunum 2000 til 2007.

Auk þess er tekið fram að erlendar eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af heildareignum hafi farið lækkandi undanfarin ár, en hlutfallið stendur nú í um 22 prósentum samkvæmt nýrri fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands, en þó hafi eignirnar hækkað nokkuð í evrum talið.

Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við HR, segir út frá flestum kennitölum "ekkert vera brjálæðislega dýr."
Erlendar eignir sjóðanna nema um 22 prósentum af heildareignum þeirra, að því er fram kemur í úttekt Fossa, en allt önnur mynd blasir við þegar litið er til erlendra eigna sjóðanna sem hlutfalls af vergri landsframleiðslu. Þar sitja íslensku lífeyrissjóðirnir í þriðja sæti innan ríkja OECD, líkt og áður sagði.

Í ljósi lágs hlutfalls innlendrar hlutabréfaeignar af heildareignum og vísbendinga um yfirverðlagningu á erlendum mörkuðum er það mat Fossa að lífeyrissjóðirnir ættu að líta sér nær.

„Við erum meðvituð um að verð bæði hlutabréfa og skuldabréfa á erlendum mörkuðum er hátt. Vextir eru í sögulegu lágmarki sem skilar sér í hærra eignaverði. En við erum einnig meðvituð um þann ávinning sem felst í því að dreifa áhættunni af fjárfestingum okkar,“ segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.

Ekki brjálæðislega dýr

Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, segir að vissulega hafi erlendar hlutabréfavísitölur hækkað mikið síðustu ár. Dow Jones vísitalan hafi til að mynda meira en þrefaldast frá árinu 2009. „En sé litið til síðustu 17 ára hafa skuldabréf veitt betri ávöxtun en hlutabréf. Ef sjóðirnir vilja forðast að fjárfesta í toppi ættu þeir frekar að fjárfesta í hlutabréfum en skuldabréfum. Út frá flestum kennitölum eru hlutabréf ekkert brjálæðislega dýr. Þau eru ekki ódýr en ég sé engin merki um bólumyndun,“ segir hann.

Vart sé hægt að réttlæta kaup á erlendum skuldabréfum á meðan ávöxtunarkrafa þeirra sé um 1 til 2 prósent og krafan á óverðtryggðum bréfum hér á landi sé um 5 til 6 prósent.

„Vandinn er sá að nánast allar erlendar eignir lífeyrissjóða, eða um 98 prósent, eru bundnar í hlutabréfum. Í ljósi þess að erlend skuldabréf eru ekki að veita góða ávöxtun eiga lífeyrissjóðirnir því erfitt um vik að auka fjárfestingar sínar erlendis með góðu móti,“ bendir hann á.

Til lengri tíma ætti að mati Más að afnema þakið sem finna má í lífeyrissjóðalögunum, sem kveður á um að sjóðirnir skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum við 50 prósent af hreinni eign sjóðsins, og setja þess í stað gólf á erlendar fjárfestingar sjóðanna.

„Slíkt gólf yrði ákveðinn öryggisventill. Þegar efnahagslífið var í blóma á árunum fyrir hrun voru skatttekjur háar og þeir sem minnst mega sín í samfélaginu fengu bætur frá ríkinu og annað slíkt. Þegar efnahagurinn dróst saman minnkuðu hins vegar greiðslur til margra sem síst þurftu. Þá hefði aldeilis verið gott – þegar krónan hrapaði í verði – að lífeyrissjóðirnir ættu erlendar eignir sem hefðu í hlutfalli við fall krónunnar hækkað í virði.“

Flýta sér hægt

Ekki má segja að lífeyrissjóðirnir hafi hraðað sér úr landi með eignir sínar eftir að fjármagnshöft voru afnumin í mars síðastliðnum. Þannig kemur fram í stöðugleikaskýrslu Seðlabankans að hlutfall erlendra eigna sjóðanna af heildareignum, sem sé um 22 prósent, hafi lítið breyst á árinu. Þó megi búast við aukinni áhættudreifingu sjóðanna á komandi árum með aukinni fjárfestingu í erlendum eignum.

„Við erum meðvituð um að verð bæði hlutabréfa og skuldabréfa á erlendum mörkuðum er hátt,“ segir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.
Gunnar segir að megnið af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hafi farið í sjóðfélagalán og erlendar fjárfestingar á þessu ári. Á sama tíma sé minna keypt af öðru, svo sem innlendum verðbréfum. Sjóðurinn hafi fjárfest mikið á erlendri grundu það sem af er ári og stefni að því að auka jafnt og þétt hlutfall erlendra eigna af heildareignum sínum. Sífellt meiri tími fari auk þess í að skoða erlend fjárfestingar­tækifæri.

„Það er mjög farsæl leið að dreifa áhættunni með því að fjárfesta erlendis yfir langan tíma í jöfnum skrefum. Við höfum aðallega fjárfest í hlutabréfum en einnig reynt að dreifa fjárfestingum í aðra eignaflokka, eins og til dæmis í stuttum skuldabréfum til þess að draga úr vaxtaáhættu.“ 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×