Handbolti

Janus Daði með fjögur í þriðja sigri Aalborg í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Janus Daði skoraði fjögur mörk fyrir Aalborg.
Janus Daði skoraði fjögur mörk fyrir Aalborg. vísir/getty
Fjögur Íslendingalið voru í eldlínunni í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk fyrir Aalborg sem vann tveggja marka sigur á Midtjylland, 28-26. Arnór Atlason komst ekki á blað en gaf tvær stoðsendingar.

Aron Kristjánsson er þjálfari Aalborg sem hefur unnið þrjá leiki í röð. Liðið er í 4. sæti deildarinnar, einu sæti neðar en Århus sem laut í lægra haldi fyrir toppliði Skjern, 26-29, á heimavelli.

Ómar Ingi Magnússon og Sigvaldi Guðjónsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Århus og Róbert Gunnarsson eitt. Tandri Már Konráðsson var ekki á meðal markaskorara hjá Skjern.

Vignir Svavarsson og félagar í Team Tvis Holstebro unnu Ribe-Esbjerg, 33-29, á heimavelli. Vignir skoraði ekki í leiknum. Holstebro er í 6. sæti deildarinnar.

Óvænt úrslit urðu þegar Kristianstad tapaði 28-22 fyrir Malmö í sænsku úrvalsdeildinni. Ólafur Guðmundsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad en Arnar Freyr Arnarsson og Gunnar Steinn Jónsson komust ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×