Viðskipti innlent

Nánast ekkert ríki jafn háð ferðaþjónustu og Ísland

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Í nýrri spá Arion banka er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 11 prósent á næsta ári, og að alls 2,5 milljónir ferðamanna heimsæki landið.
Í nýrri spá Arion banka er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 11 prósent á næsta ári, og að alls 2,5 milljónir ferðamanna heimsæki landið. vísir/pjetur

Ferðaþjónustutekjur á hvern Íslending nema um 8.800 dölum og eru þær hæstu í heiminum, að Lúxemborg undanskilinni. Sem dæmi eru tekjur á hvern Íslending um sex sinnum hærri en á hvern Spánverja. Er þá ekki tekið tillit til farþegaflutninga. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri ferðaþjónustu­úttekt greiningardeildar Arion banka sem kynnt verður í dag.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur í greiningardeild bankans, segir vægast sagt fáheyrt að ríki, hvað þá myntsvæði, sé jafn háð ferðaþjónustu og Ísland.

„Það er mjög óalgengt að ferðaþjónusta hafi eins mikil áhrif á hagkerfið og gengi gjaldmiðils og hér. Yfirleitt spyrja menn hvaða áhrif gengið hafi á ferðaþjónustuna, en færri velta því fyrir sér hvaða áhrif ferðaþjónustan hefur á gengið. Það eru nokkuð skýrar vísbendingar um að einn af stærstu – ef ekki sá stærsti – drifkröftunum í gengisstyrkingu krónunnar síðustu misseri hafi verið ferðaþjónustan sjálf. Hún hefur verið aðaldrifkrafturinn í hagkerfinu.“

Greiningardeildin gerir ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna á næstu árum, en að hægja taki á vextinum. Í grunnsviðsmynd sérfræðinga bankans er gert ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 11 prósent á næsta ári, og að alls 2,5 milljónir ferðamanna heimsæki landið, og 8 prósent árið 2019. Til samanburðar var vöxturinn 38 prósent í fyrra.

Að mati greiningardeildarinnar ræður flugframboð meira um fjölgun ferðamanna á næstu árum en gengisstyrking krónunnar. Bendir deildin á að árið 2005 hafi tvö flugfélög flogið allan ársins hring til landsins en í ár eru þau fimmtán talsins.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur í greiningardeild Arion banka.

Samkvæmt grunnsviðsmynd greiningardeildarinnar má áætla að tekjur af erlendum ferðamönnum á árunum 2017 til 2020 nemi tæpum 2.400 milljörðum króna eða sem nemur allri landsframleiðslu Íslands í fyrra.

Auk þess kemur fram í úttekt greiningardeildarinnar að hagvöxtur í fyrra hefði verið nær 4 prósentum, en ekki 7,4 prósent, ef ekki hefði verið fyrir aukin umsvif í ferðaþjónustunni. Var vægi ferðaþjónustunnar í útflutningi um 42 prósent í fyrra sem er um helmingi meira en sjávarútvegur og áliðnaður samanlagt.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
REGINN
1,95
13
154.180
KVIKA
0,79
3
26.427
SIMINN
0,56
3
33.788
MAREL
0,54
25
675.501
SKEL
0,25
3
5.182

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIK
-2,88
17
153.220
SJOVA
-2,54
8
107.416
TM
-2,48
6
95.263
VIS
-2,35
1
12.050
ICEAIR
-1,32
38
108.834
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.