Körfubolti

Jón Arnór um Hauk: Ég veit ekki alveg hvað menn eru að reykja þarna út í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson á æfingu í dag.
Haukur Helgi Pálsson á æfingu í dag. Vísir/Ernir
Jón Arnór Stefánsson hrósaði Hauki Helga Pálssyni fyrir frammistöðu sína á móti Grikkjum á Eurobasket í gær en Haukur skoraði 21 stig á eitt sterkasta lið Evrópu.

„Haukur var með grúvið. Þú sást það á honum að hann var eins og hann var í Berlín. Hann er frábær og hefur alltaf verið frábær fyrir okkur. Hann er æðislegur leikmaður og ég veit ekki alveg hvað menn eru að reykja þarna út í heimi að hafa ekki samið við hann fyrr," sagði Jón Arnór.

Haukur Helgi lék með Rouen í frönsku b-deildinni síðasta vetur en tímabilið á undan var hann með Njarðvík í Domino´s deildinni. Haukur fékk í sumar samning hjá franska úrvalsdeildarliðinu Cholet Basket.

„Hann er þroskast sem leikmaður og hefur bætt sig rosalega síðustu þrjú ár, sérstaklega með landsliðinu. Hann er orðinn einn af okkar helstu póstum og þarf að draga vagninn stundum. Hann gerði það frábærlega í dag (í gær) og var mjög flottur,“ sagði Jón Arnór eftir leikinn.

Jón vill hinsvegar sjá fleiri í liðinu finna taktinn og skila meiru til liðsins í framhaldinu en næsti leikur er á móti Póllandi á morgun. Fimm leikmenn voru næstsstigahæstir hjá íslenska liðinu á móti Grikkjum og skoruðu þeir allir sjö stig eða fjórtán stigum minna en Haukur.

„Það þarf fleiri en Hauk og við þurfum að vera klárir að vinna í okkur sjálfum og gera helling af hlutum,“ sagði Jón Arnór.

Leikmennirnir sem skoruðu sjö stig í leiknum við Grikki voru Jón Arnór, Martin Hermannsson, Hlynur Bæringsson, Kristófer Acox og Hörður Axel Vilhálmsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×