Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir hafi allt uppi á borðum

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar Vísir/gva
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, telur að íslensku lífeyrissjóðirnir verði að ganga lengra í að auka gagnsæi um starfsemi sína. „Ég álít að það eigi að vera algjört gagnsæi um fjárfestingar lífeyrissjóðanna, til dæmis í hverju þeir fjárfesta, hvernig þeir beita sér, með hvaða stjórnarmanni þeir greiða atkvæði á hluthafafundum og hvaða tillögur þeir leggja fram,“ segir hann.

Aukið gagnsæi í starfsemi sjóðanna er að mati Páls mikilvægt vegna þess hve umfangsmiklir þeir eru á hlutabréfamarkaði – en ríflega 40 prósent af markaðsvirði skráðra hlutabréfa er í höndum sjóðanna – og eins í ljósi þess að þeir fara með fé almennings.

Páll segir lífeyrissjóðina enn eiga mikið verk fyrir höndum að bæta gagnsæi í fjárfestingarákvörðunum sínum. Margir þeirra þyrftu til að mynda að setja sér skýrari reglur um hvernig þeir beita sér sem fjárfestar í fleiri en einu félagi á sama samkeppnismarkaði.

Páll segir þó að miðað við mikið umfang sjóðanna á innlendum hlutabréfamarkaði sé óraunhæft að ætla þeim að sitja á hliðarlínunni. Þeir eigi að beita sér af öllu afli, með sams konar hætti og aðrir fjárfestar, og vernda þar með hagsmuni sína og sjóðfélaga.

„Það er mikilvægt að lífeyrissjóðirnir hafi svigrúm til að beita sér af afli þegar þess er þörf, því þeir fara með fé almennings.“ Misráðið væri að gera þá algjörlega valdalausa.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×