Fastir pennar

Komið á kortið

Hörður Ægisson skrifar
Sterk staða efnahagsmála hér á landi fer ekki fram hjá erlendum fjárfestum. Áhugi þeirra á Íslandi hefur aukist til muna eftir að áætlun um losun hafta var kynnt sumarið 2015. Í þetta sinn er sú þróun ekki fyrst og fremst drifin áfram af vaxtamunarviðskiptum, eins og á árunum í aðdraganda fjármálahrunsins, heldur fjárfestingum erlendra sjóða og fyrirtækja í fjölmörgum geirum atvinnulífsins – Ísland er komið á kortið. Þar er ferðaþjónustan ekki undanskilin.

Á sama tíma og vísbendingar eru um að það kunni að vera blikur á lofti í hótelrekstri, ekki hvað síst á landsbyggðinni, þá eru umsvifamiklir fjárfestar frá Alaska að ganga frá kaupum á meirihluta í Keahótelum, einni stærstu hótelkeðju landsins. Þrátt fyrir ákvörðun lífeyrissjóða um að hafna rúmlega 11 milljarða tilboði Blackstone í 30 prósenta hlut í Bláa lónið, eins og greint var frá í Fréttablaðinu í vikunni, þá sætir það einnig tíðindum þegar einn þekktasti fjárfestingasjóður heims sýnir áhuga á að kaupa íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki fyrir slíka fjárhæð. Miðað við tilboð Blackstone er markaðsvirði Bláa lónsins því um 37 milljarðar en til samanburðar er Icelandair Group metið á um 70 milljarða.

Sá verðmiði þarf ekki að koma á óvart. Vöxtur Bláa lónsins hefur verið ævintýralegur samhliða auknum straumi ferðamanna til landsins. Fjöldi gesta í lónið fór í fyrsta sinn yfir milljón talsins í fyrra og hefur þeim fjölgað um meira en 660 þúsund frá 2011. Hagnaður Bláa lónsins hefur margfaldast á síðustu árum og var afkoma fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði og afskriftir jákvæð um nærri 3.500 milljónir króna 2016. Ljóst er að lífeyrissjóðirnir, sem eiga umtalsverðan hlut í Bláa lóninu í gegnum bæði HS Orku og Horn framtakssjóð, telja að framhald verði á þessari þróun og að virði lónsins sé því enn meira en tilboð Blackstone gaf til kynna. Hvort það mat reynist rétt á eftir að koma í ljós.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, benti réttilega á það í viðtali við Markaðinn fyrr á árinu að stjórnvöld og fyrirtæki í ferðaþjónustu ættu að fara að fordæmi Bláa lónsins sem hefði tekist afar vel upp í tekjustýringu og álagsdreifingu. „Það er til dæmis fullkomlega eðlilegt,“ sagði Skúli, „að gera þá kröfu að rútur sem heimsækja Gullfoss og Geysi þurfi að bóka fyrirfram tíma til að geta heimsótt þessa staði. Bláa lónið hefur gert þetta í nokkur ár og það hefur skilað sér í aukinni arðsemi og meiri ánægju gesta sem lenda ekki í sama troðningi og áður.“

Ferðaþjónustan stendur um margt á tímamótum. Þótt útlit sé fyrir hóflegri vöxt í fjölgun ferðamanna en á undanförnum árum þá er brýnt að finna leiðir, eins og Bláa lónið hefur gert, til að dreifa álaginu betur um helstu ferðamannasvæði landsins. Sterkt gengi krónunnar þýðir einnig að fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að bregðast við erfiðara rekstrar­umhverfi. Hagræðing og veruleg samþjöppun er óumflýjanleg. Það er hins vegar engin ástæða til svartsýni. Vaxandi áhugi erlendra fyrirtækja og sjóða á að fjárfesta í íslenskri ferðaþjónustu sýnir það.






×