Viðskipti innlent

Ágústa Johnson í stjórn Bláa lónsins

Hörður Ægisson skrifar
Ágústa Johnson á tæplega þriggja prósenta hlut í Bláa lóninu.
Ágústa Johnson á tæplega þriggja prósenta hlut í Bláa lóninu.
Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, og Steinar Helgason, sjóðstjóri hjá Landsbréfum, hafa sest í stjórn Bláa lónsins. Þau koma ný inn í stjórnina í stað Eðvards Júlíussonar, sem hefur verið í stjórn Bláa lónsins um árabil, og Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Ágústa á tæplega þriggja prósenta hlut í Bláa lóninu í gegnum Bogmanninn ehf. Sé litið til þess að tilboð sem hafa borist frá erlendum sjóðum í 30 prósenta hlut HS Orku í Bláa lónið, eins og greint var frá í Markaðnum í síðustu viku, verðleggja fyrirtækið á yfir 30 milljarða þá er hlutur Ágústu í dag því metinn á um milljarð króna.

Steinar situr í stjórn Bláa lónsins fyrir hönd framtakssjóðsins Horns II, sem er í rekstri Landsbréfa, en sjóðurinn á tæplega helmingshlut í Hvatningu sem er stærsti hluthafi Bláa lónsins með 39,1 prósent. 

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×