Viðskipti innlent

Geta inn­leyst um 20 milljarða gengis­hagnað eftir fjárfestingarleið

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Fjárfestar komu inn í landið með 245 milljónir evra, eða sem jafngildir fimmtíu milljörðum króna miðað við vegið útboðsgengi, í fyrstu fjórum útboðum fjárfestingarleiðarinnar á fyrri helmingi 2012.
Fjárfestar komu inn í landið með 245 milljónir evra, eða sem jafngildir fimmtíu milljörðum króna miðað við vegið útboðsgengi, í fyrstu fjórum útboðum fjárfestingarleiðarinnar á fyrri helmingi 2012. vísir/anton brink

Þeir fjárfestar sem komu með evrur hingað til lands í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands á fyrri helmingi ársins 2012 geta nú innleyst rúma tuttugu milljarða króna í gengishagnað, samkvæmt útreikningum Markaðarins. Ávöxtunin á þessu fimm ára tímabili nemur fjórtán prósentum á ársgrundvelli. Til viðbótar við gengishagnaðinn bætist síðan ávöxtun af fjárfestingunni sjálfri, en ætla má að hún hafi almennt verið afar ríkuleg á undanförnum árum.

Þannig gæti fjárfestir sem kom með evrur til landsins í fyrsta útboði fjárfestingarleiðarinnar, í febrúar árið 2012, og keypti sér fimmtíu milljóna fasteign í miðbæ Reykjavíkur nú innleyst tæplega 58 milljóna hagnað. Árleg ávöxtun nemur í því tilviki 38,9 prósentum.

Fjölmargir fjárfestar og fyrirtæki nýttu sér fjárfestingarleið Seðlabankans á árunum 2012 til 2015 til þess að koma með gjaldeyri og fjárfesta hér á landi. Bandarískir eigendur Íslenskrar erfðagreiningar voru hvað stórtækastir, en alls komu þeir með 9,3 milljarða króna til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar til þess að fjármagna innlendan rekstur og fjárfestingar fyrirtækisins. Félag í áttatíu prósenta eigu Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa, og tuttugu prósenta eigu Hjörleifs Þórs Jakobssonar fjárfestis kom jafnframt með tæpa tvo milljarða króna hingað til lands í desember 2012, en fjármunirnir verða lausir til ráðstöfunar í lok þessa árs.

Með leiðinni, sem var hugsuð sem skref í losun gjaldeyrishafta, var reynt að laða erlent fjármagn inn í landið og hleypa um leið aflands­krónum úr landinu. Eigendum erlends gjaldeyris var gert kleift að kaupa krónur á betra verði en opinbert gengi Seðlabankans sagði til um, en krónuafslátturinn umræddi var að meðaltali í kringum tuttugu prósent. Hann var allt að þrjátíu prósent í fyrstu útboðunum en fór lækkandi eftir því sem á leið og í byrjun árs 2015 náði hann vart tíu prósentum. Á meðal þeirra kvaða sem fjárfestar þurftu að gangast undir var að binda fjárfestingu sína hér á landi í fimm ár.

Fyrstu fjögur útboðin á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar fóru fram á fyrri helmingi árs 2012. Þeir sem tóku þátt í útboðunum geta því nú, fimm árum síðar, selt fjárfestingar sínar, skipt krónunum í evrur og flutt þær úr landi, kjósi þeir svo. Krónuafslátturinn og veruleg gengisstyrking krónunnar á undanförnum árum, en gengi krónunnar hefur styrkst um 34 prósent á undanförnum fimm árum samkvæmt gengisvísitölu, hefur gert það að verkum að þátttakendur í þessum fyrstu fjórum útboðum geta nú innleyst verulegan gengishagnað, um 20,3 milljarða króna.

Fjögur útboð til viðbótar voru haldin á árinu 2012. Alls komu 381,4 milljónir evra til landsins í gegnum öll átta útboðin. Ef allri fjárhæðinni yrði nú skipt í krónur myndi hreinn gengishagnaður nema 31,2 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Ávöxtun fjárfestanna á þessu fimm ára tímabili var því 13,8 prósent á ársgrundvelli. Fjárfestir sem kom með eina milljón evra til Íslands í fyrsta útboði fjárfestingarleiðarinnar gæti, svo eitt dæmi sé tekið, innleyst 82,5 milljónir króna í gengishagnað. Þá er auðvitað ótalin ávöxtun af sjálfri fjárfestingunni.

Féð oft nýtt í rekstur

Taka skal fram að í mörgum tilfellum var um að ræða fjármuni sem nýttir voru til þess að fjármagna rekstur fyrirtækja hér á landi. Ekki er því hætta á að fjármunirnir fari úr landi nú að fimm ára binditímanum liðnum. Actavis kom til dæmis með 988 milljónir króna í gegnum fjárfestingarleiðina árið 2012 í því skyni að fjárfesta í tækjabúnaði fyrir lyfjaþróun og endurfjármagna lán vegna stækkunar lyfjaverksmiðju félagsins í Hafnarfirði. Leiða má að því líkur að félagið hafi ekki þurft neina gulrót í formi afsláttar á krónum. Fjármunirnir hefðu hvort eð er komið til landsins, óháð afslættinum.

Markaðurinn hefur heimildir fyrir því að hluti þeirra fjárfesta, sem nýttu sér fjárfestingarleiðina á fyrri hluta árs 2012, hafi selt fjárfestingar sínar og flutt gjaldeyrinn úr landi. Ekki er vitað í hve miklum mæli þeir hafa skipt krónum í gjaldeyri, en ekki er talið að um verulegar fjárhæðir sé að ræða. Þó telja nokkrir viðmælendur Markaðarins að gjaldeyrisútflæði vegna umræddra fjárfesta hafi mögulega átt einhvern þátt í gengisveikingu krónunnar undanfarnar vikur. Erfitt sé hins vegar að slá því föstu með óyggjandi hætti.

Auðmenn nýttu leiðina

Fjölmargir þekktir fjárfestar og fyrirtæki nýttu sér fjárfestingarleiðina árið 2012. Ágúst og Lýður Guðmundssynir, stofnendur Bakka­varar, komu til dæmis með 5,1 milljarð króna til landsins í gegnum leiðina, en féð nýttu þeir til þess að sanka að sér hlutum í Bakkavör af íslenskum lífeyrissjóðum. Voru þeir í lok árs 2012 orðnir stærstu einstöku eigendur félagsins.

Þá nýtti útgerðarfélagið Samherji sér leiðina til þess að koma með rúma 2,4 milljarða króna til landsins – í gegnum félagið Kaldbak – til þess að fjármagna kaup félagsins á 37,5 prósenta hlut í olíufélaginu Olís og hlut í Jarðborunum. Eins og kunnugt er hefur félagið ákveðið að selja allan hlut sinn í Olís til Haga, en gert er ráð fyrir að salan gangi í gegn fyrir lok ársins.

Breska verslunarkeðjan Iceland kom einnig með fjármuni, nánar tiltekið 160 milljónir króna, til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina til þess að fjármagna kaup á 37 prósenta hlut í íslensku Iceland-versluninni.

Eigandi Húsasmiðjunnar, danska byggingavörukeðjan Bygma, nýtti sér jafnframt leiðina árið 2012 með því að gefa út skuldabréf til tíu ára fyrir um 1,4 milljarða króna. Voru fjármunirnir nýttir til þess að skjóta styrkari stoðum undir rekstur Húsasmiðjunnar.

Þá var fjárfestirinn Jón S. von Tetzchner iðinn við að nýta sér fjárfestingarleiðina. Hann kom með 1,1 milljarð til landsins árið 2012 og fjárfesti í ýmsum fasteignum og félögum, svo sem OZ, netversluninni Budin.is, fjarskiptafélaginu Hringdu og SmartMedia, sem selur og hýsir vefverslanir. Allt í allt kom hann með 4,8 milljarða til landsins í gegnum leiðina á árunum 2012 til 2015.

Fleiri þekktir fjárfestar fóru fjárfestingarleiðina árið 2012, svo sem Hjörleifur Þór Jakobsson, sem kom með 501 milljón króna til þess að kaupa hlut í Hampiðjunni og Öryggis­miðstöðinni, Karl Wern­ersson, sem flutti 240 milljónir til landsins til þess að kaupa fasteignir og auka hlutafé í Lyf og heilsu, Heiðar Guðjónsson, sem kom með 209 milljónir til þess að fjármagna ýmsar innviðafjárfestingar, og Skúli Mogensen, sem flutti hingað til lands 303 milljónir til þess að fjármagna auknar fjárfestingar sínar í meðal annars MP banka og WOW air.

31 milljarðs afsláttur

Fram kom í svari Benedikts Jó­hannes­sonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, frá því fyrr í sumar að alls hafi 1.100 milljónir evra komið til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar frá febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Ef miðað er við núverandi gengi er gengishagnaður vegna umræddra fjárfestinga alls 75,7 milljarðar króna. Nemur gengismunurinn rúmum 638 milljónum evra. Þátttakendur í útboðunum fengu samtals um 31 milljarði króna hærra verð fyrir erlenda gjaldeyrinn en það verð sem öðrum bauðst.

Um 47 prósent af fjármagnsinnstreyminu, vegna fjárfestingarleiðarinnar, rann til kaupa á skuldabréfum, um 40 prósent til kaupa á hlutabréfum, 12 prósent til kaupa á fasteignum og tæplega eitt prósent til kaupa á hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum.

Innlendir fjárfestar voru nokkuð áberandi í fjárfestingarleiðinni. Þeir stóðu til dæmis að baki 43 prósentum þeirrar fjárhæðar sem kom til landsins árið 2012 en erlendir fjárfestar 57 prósentum. Eru þá erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar. Það er nokkuð á skjön við upphaflegan tilgang leiðarinnar, eins og hann var tíundaður í afnámsáætlun Seðlabanka Íslands frá því í marsmánuði árið 2011. Þar var markhópur leiðarinnar skilgreindur sem „erlendir aðilar sem hafa áform um fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og vilja kaupa aflandskrónur til þess að auka arðsemi hennar“.

Umdeild fjárfestingarleið

Eitt helsta bitbeinið í umræðum um fjárfestingarleiðina var hvort hún hvetti í raun og veru til aukinnar erlendrar fjárfestingar hér á landi eða hvort hún veitti aðeins fjárfestum, sem hefðu hvort sem er komið með fjármuni til landsins, ósanngjarnt forskot umfram keppinauta þeirra. Óumdeilt er að fjárfestingarleiðin skapaði aðstöðumun á milli fjárfesta. Eigendur erlends gjaldeyris gátu enda skipt honum í krónur á ríflegum afslætti og yfirboðið með þeim hætti í þær eignir sem voru til sölu.

Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hafa í huga að það var ekki Seðlabankinn sem veitti umræddum fjárfestum afslátt af krónukaupum. Bankinn hafði eingöngu milligöngu í viðskiptum á milli fjárfestanna og þeirra aflandskrónueigenda sem voru reiðubúnir til þess að selja krónurnar sínar á afslætti og komast þannig af landi brott með gjaldeyri. Það voru því eigendur aflandskrónanna sem veittu afslátt á krónum, en hins vegar var það Seðlabankinn sem annaðist gjaldeyrisútboðin og átti heiðurinn af sjálfri leiðinni, ef svo má segja.

Á meðal þeirra kvaða sem fjárfestar þurftu að gangast undir var, eins og áður sagði, að fjárfesting þeirra yrði bundin hérlendis í fimm ár. Var það gert í því skyni að draga úr líkum á því að „spákaupmenn tækju þátt í útboðunum“, líkt og það var orðað í svari fjármálaráðherra, en slíkt hefði komið í veg fyrir að markmið stjórnvalda um aukinn stöðugleika næðist. Fjárfestarnir þurftu enn fremur að koma með jafn mikið af erlendum gjaldeyri og þeir skiptu á útboðsgengi í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Fengu þeir engan afslátt af þeirri fjárhæð. Þetta þýðir með öðrum orðum að helmingur þeirrar fjárhæðar sem þeir komu með til landsins var seldur á álandsgengi – opinbera genginu – og hinn helmingurinn á afsláttargenginu.

Skatturinn rannsakar

Í svari fjármálaráðherra kom jafnframt fram að þátttakendur í útboðum fjárfestingarleiðarinnar hafi að meginhluta komið frá aðildarríkjum OECD. Hins vegar tóku sjö félög, í meirihlutaeigu Íslendinga, frá svæðum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði þátt í einhverju af útboðunum. Komu þau félög með samtals 26 milljónir evra til landsins. Auk þess var greint frá því í svarinu að frá Lúxemborg, Kýpur og Möltu hafi tólf félög í meirihlutaeigu Íslendinga tekið þátt í fjárfestingarleiðinni með 82 milljónir evra.

Fram kom í fréttum Ríkis­útvarpsins um síðustu helgi að 21 Íslendingur, sem nefndur er í Panamaskjölunum sem stjórnvöld keyptu fyrir tveimur árum, hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina. Skattrannsóknarstjóri kallaði eftir upplýsingum frá Seðlabankanum um hverjir hefðu tekið þátt í fjárfestingarleiðinni, en með því að keyra þær upplýsingar saman við keyptu Panamaskjölin mátti finna nöfn 21 Íslendings.

Þá staðfesti ríkiskattstjóri að fjögur skattsvikamál, sem tengjast þeim sem fluttu fé til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina, væru til sérstakrar skoðunar hjá embættinu. Málin hafa ekki enn verið til lykta leidd.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×