Viðskipti innlent

Dohop þarf að sækja sér 65 til 100 milljónir

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.
Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.

Dohop þarf að sækja sér 65 milljónir króna að lágmarki á þessu ári til þess að halda rekstrinum gangandi. Ef gengi krónunnar heldur áfram að styrkjast gæti fjárhæðin orðið allt að eitt hundrað milljónir króna. Þetta kemur fram í fundargerð aðalfundar félagsins sem haldinn var 23. maí síðastliðinn og Markaðurinn hefur undir höndum.

Haft er eftir Davíð Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Dohop, í fundar­gerðinni að gengisstyrking krónunnar hafi haft mikil áhrif á rekstur félagsins. Stjórnendur Dohop sögðu meðal annars upp tíu starfsmönnum hér á Íslandi á fyrsta fjórðungi ársins og réðu þess í stað starfsmenn í Hvíta-Rússlandi og Úkraínu.

Davíð útskýrði jafnframt á fundinum hvernig aukið hlutafé hefði drifið tekjuvöxt félagsins áfram. Miðað við þá reynslu ættu stjórn og hluthafar að huga mögulega að því að sækja meira fé en minna. Hann bætti við að ef einhvern tímann væri tími til þess að hafa félagið vel fjármagnað, þá væri það núna.

Velta Dohop jókst um 41 prósent og nam 305 milljónum króna í fyrra. Varð um 200 milljóna króna tap á rekstrinum. Davíð sagði í samtali við Viðskiptablaðið í lok marsmánaðar að útlit væri fyrir að veltan myndi aukast um fimmtíu prósent í ár og verða um 405 milljónir króna. Yrði afkoman í kringum núllið.

Hann benti á að stærstur hluti tekna félagsins – ríflega 75 prósent – væru laun í íslenskum krónum og um 90 prósent teknanna væru í erlendri mynt. Styrking krónunnar hefði því áhrif á báðar hliðar rekstrar­reikningsins sem væri verulega óþægilegt. Gerði hann ráð fyrir að styrkingin myndi kosta félagið um fimmtíu til áttatíu milljónir króna á þessu ári.

Dohop var stofnað árið 2004 og rek­ur ferðal­eit­ar­vef­inn Dohop.is.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ORIGO
2,8
8
18.571
MARL
1,56
56
1.809.084
LEQ
1,37
1
1.549
EIM
0,57
6
22.188
ARION
0,5
12
152.139

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
GRND
-2,46
7
55.714
EIK
-2,24
7
75.346
REITIR
-1,86
12
277.872
SIMINN
-1,77
8
142.210
FESTI
-1,74
5
116.070
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.