Viðskipti innlent

Arnarlax gerir ráð fyrir 2,3 milljarða hagnaði

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Arnarlax á Bíldudal er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins.
Arnarlax á Bíldudal er stærsta fiskeldisfyrirtæki landsins. Vísir/Pjetur
Fiskeldisfyrirtækið Arnarlax tapaði fjörutíu milljónum norskra króna, sem jafngildir tæplega 489 milljónum íslenskra króna, á fyrsta fjórðungi ársins. Fyrirtækið slátraði tvö þúsund tonnum af laxi á tímabilinu og stefnir á að slátra tíu þúsund tonnum á árinu, að sögn Kjartans Ólafssonar, stjórnarformanns Arnarlax. Aðeins er rúmt ár síðan fyrirtækið hóf laxaslátrun.

Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust verulega á fyrsta fjórðungi og námu alls 146 milljónum norskra króna eða tæplega 1,8 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar voru rekstrartekjur 247 milljónir norskra króna á síðasta ári. Alls slátraði fyrirtækið fjögur þúsund tonnum af heilum fiski í fyrra.

Fyrirtækið skilaði 2,7 milljarða króna hagnaði fyrir skatta í fyrra, en hagnaðartalan er fengin með því að meta meðal annars lífmassann í sjókvíum fyrirtækisins á Bíldudal á markaðsverði. Þó ber að taka fram að rekstrarhagnaður (EBIT) fyrirtækisins var neikvæður um 21 milljón króna á árinu. Það skýrist meðal annars af háum framleiðslukostnaði og eins kostnaði sem féll til vegna sameiningar Arnarlax og Fjarðalax, að því er fram kemur í uppgjöri norska laxeldisfyrirtækisins SalMar, sem er kjölfestufjárfestir í Arnarlaxi.

Kjartan segir fyrirtækið áætla að EBITDA, þ.e. hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta, verði um tuttugu milljónir evra á þessu ári, jafnvirði 2,35 milljarða króna.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax
„Reksturinn hefur gengið vel og áfallalaust fyrir sig. Í núverandi árferði er verðið á laxi mjög hátt og markaðsaðstæður almennt sterkar,“ segir hann í samtali við blaðið. Mikil eftirspurn sé eftir laxinum. „Laxinn er ferskvara sem fer beint á markað. Rekjanleiki og gegnsæi í framleiðslunni er mikið. Það fara um fjórir trukkar á dag frá Bíldudal í skipi eða flugi. Við höfum náð að skapa okkur nokkuð sterka stöðu á mörkuðum,“ útskýrir hann og bætir við að um 60 til 70 prósent af framleiðslunni fari til Whole Foods í Bandaríkjunum, tíu prósent á heimamarkað og afgangurinn til Evrópu.

Kjartan segir fyrirtækið stefna að því að auka framleiðsluna í 12.500 tonn á næstu tveimur árum. Leyfamálin séu þó þröskuldur. Til þess að hægt sé að byggja upp meiri afkastagetu í seiðaframleiðslu þurfi stjórnvöld að skýra stöðu leyfamála og útgáfu nýrra leyfa til eldis.

Fyrr á árinu seldi Tryggingamiðstöðin þriggja prósenta hlut í Kvitholmen, móðurfélagi Arnarlax, fyrir jafnvirði um 470 milljóna króna. Í viðskiptunum var Arnarlax þannig metinn á um sextán milljarða. Að viðbættum skuldum gæti heildarvirði fyrirtækisins verið hátt í tuttugu milljarðar. TM heldur um 4,4 prósenta hlut í Kvitholmen eftir viðskiptin. Kaupendur voru nokkrir norskir fagfjárfestasjóðir og hluthafar í Kvitholmen, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Norska fyrirtækið SalMar eignaðist tæplega 23 prósenta hlut í Arnarlaxi snemma á síðasta ári og bætti síðan við hlut sinn þegar Arnarlax sameinaðist Fjarðalax síðar á árinu. Lánaði SalMar þá öðrum eigendum Arnarlax um 240 milljónir norskra króna vegna hlutafjáraukningar. Í uppgjöri SalMar fyrir fyrsta fjórðung ársins kemur fram að félagið eigi 34 prósenta hlut í Arnarlaxi í gegnum annað norskt félag, SalMus. Feðgarnir Matthías Garðarsson, einn af stofnendum Arnarlax, og Kristian Matthíasson eru eftir sem áður kjölfestufjárfestar í Arnarlaxi. Aðrir hluthafar eru meðal annars norskir fjárfestar, norsk félög sem tengjast Matthíasi og TM.

Norsk laxeldisfyrirtæki hafa haslað sér völl hér á landi undanfarna mánuði og fjárfest í fjölmörgum íslenskum eldisfyrirtækjum. Ástæðan er að hluta til sú að verð á leyfum til laxeldis hefur hækkað verulega í Noregi. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.