Fasteignasalar sem Fréttablaðið ræddi við eru sammála um að finna fyrir hægari hækkun fasteignaverðs undanfarnar vikur. Opinberar tölur sýna þó ekki kólnun á markaðnum.
„Við sjáum ekkert út frá opinberum veltutölum um kaupsamninga sem gefa til kynna kólnun á markaðnum. En það gæti bara verið að það eigi eftir að koma fram. Það hafa verið það miklar verðhækkanir að undanförnu að það er eðlilegt að þær haldi ekki áfram með sama hraða,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.

Ingibjörg segir að skjálfti hafi komið á markaðinn upp úr áramótum þegar rosalegum hækkunum var spáð á fasteignaverði. „Fólk var að drífa sig að kaupa og verða á undan verðhækkunum. Svo hefur þetta róast aftur og það hefur verið minna framboð. Það kann líka að skýrast af því að fólk hefur verið að bíða eftir hækkununum og kannski að freistast til að bíða með að selja fram að hausti. Sérstaklega þessir sem eru að fara í minni eignir og eru með þær stærri og dýrari til að selja.“
Hún bendir þó á að nú hægist um á markaði fram yfir verslunarmannahelgi. Fólk sé í fríi og að hugsa um annað en fasteignakaup.
„Þetta er mín upplifun að markaðurinn sé að róast og ég segi bara sem betur fer. Þetta var orðið stressástand á markaðnum og þetta veldur fólki sem er að reyna að komast inn á hann áhyggjum og kvíða. Þetta var tímabundið ástand og mér finnst það hafa jafnað sig," segir Ingibjörg.

Ingibjörg bendir á að það eru margar nýbyggingar í undirbúningi sem hafi áhrif á fasteignaverð, einnig hafi húsnæðisstefna sveitarfélaganna það líka.
„Í ljósi þess að það styttist í kosningar verða þau að vera með eitthvað útspil og koma með lóðir og stefnur í þessum húsnæðismálum. Það verður að byggja í úthverfum eins og alls staðar er gert því þar eru ódýrari lóðir. Þetta er lögmál hvar sem þú ert staddur í heiminum."
„Það að byggja áfram í Úlfarsárdalnum til dæmis er mjög gott og gefur kannski þeim sem vilja reyna að komast inn á markaðinn tækifæri. Þegar framboðið eykst þá næst meira jafnvægi milli kaupenda og seljanda. Reykjavík, stærsta sveitarfélagið, hefur verið eftirbátur hinna sveitarfélaganna, en nú eru þeir loksins að hysja upp um sig buxurnar."