Körfubolti

Moorer besti leikmaður úrslitakeppninnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ariana Moorer með þjálfurum Keflavíkur eftir leik.
Ariana Moorer með þjálfurum Keflavíkur eftir leik. mynd/víkurfréttir/páll ketilsson
Ariana Moorer varð í kvöld valin besti leikmaður úrslitakeppni Domino's-deildar kvenna en það var tilkynnt eftir sigurleik Keflavíkur gegn Snæfelli í lokaúrslitum deildarinnar í kvöld.

Keflavík vann leikinn, 70-50, og rimmuna þar með 3-1. Moorer átti stórleik í kvöld - skoraði 20 stig, tók nítján fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hún var samtals með 43 framlagspunkta.

Moorer skoraði 20 stig í fyrstu tveimur leikjunum og sautján í þeim þriðja. Hún var með minnst fimmtán fráköst í öllum fjórum leikjum úrslitarimmunnar.

„Ég get ekki lýst tilfinningunni. Ég er svo hamingjusöm,“ sagði hún eftir leikinn í kvöld. „Þessir leikmenn hafa vaxið á hverri æfingu - á hverjum degi og í allan vetur.“

Hún vildi fá þessa unga leikmenn til að standa sig betur með hverjum leiknum. „Ég vildi ýta aðeins við þeim og ég held að það hafi tekist ágætlega.“

Óvíst er hvort að Moorer snúi aftur á næstu leiktíð. „Það er mögulegt,“ sagði hún og útilokaði ekki neitt.

Moorer var með sautján stig að meðaltali í 28 leikjum í vetur og tók 10,5 fráköst.


Tengdar fréttir

Erna: Get ekki lýst tilfinningunni

Erna Hákonardóttir er fyrirliði ungs liðs Keflavíkur sem varð Íslandsmeistari í Domino's-deild kvenna eftir 3-1 sigur á Snæfelli í úrslitarimmunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×