Fastir pennar

Uppsveiflu Trumps er lokið

Lars Christensen skrifar
Í desember skrifaði ég í pistli í þessu blaði að því sem ég kallaði þá „uppsveiflu Trumps“ myndi ljúka fyrir páska. Þar sem páskarnir eru nú að baki er ekki úr vegi að athuga hvort ég hafi haft rétt fyrir mér.Með „uppsveiflu Trumps“ átti ég ekki við batann á bandaríska verðbréfamarkaðnum heldur breytingar til batnaðar í þjóðhagfræðilegum tölum sem við fórum að sjá eftir að Donald Trump var kosinn forseti 8. nóvember.Það sem ég lýsti í desember var það sem hagfræðibloggarar kalla Sumner-greiningu, eftir þeirri röksemdafærslu bandaríska hagfræðiprófessorsins Scotts Sumner að ef seðlabanki hafi skýrt, vel skilgreint og trúverðugt markmið – til dæmis verðbólgumarkmið eins og Seðlabanki Bandaríkjanna – þá verði fjárlagastuðullinn núll. Þetta þýðir að hert peningamálastefna myndi vega upp á móti slökun á fjármálastefnu (og miðað við væntingar markaðarins mun slík herðing eiga sér stað).Trumpísk fjármálaþensla

En aðstæður í nóvember, þegar Trump var kosinn, voru aðeins öðruvísi en þær sem gert er ráð fyrir í Sumner-­greiningunni. Verðbólgu­markmið Seðlabankans var ekki fyllilega trúverðugt og verðbólguvæntingar markaðarins voru nokkuð undir 2%.Þess vegna hélt ég því fram þegar Trump var kosinn að væntingarnar um trumpíska fjármálaþenslu myndu hafa nokkur jákvæð skammtímaáhrif á bandarískan hagvöxt.Í desember voru verðbólguvæntingar markaðarins til meðallangs tíma þegar komnar upp í 2%. Afleiðingin var sú að Sumner-greiningin sagði til sín og vænta hefði mátt þess að hröðun hagvaxtarins tæki enda. Sem er auðvitað einmitt það sem gerðist.Ef við lítum á hvernig þjóðhagfræðilegar tölur hafa þróast samanborið við væntingar markaða og sérfræðinga sáum við jákvæða og óvænta hluti í nóvember, strax eftir kosningu Trumps. En þegar verðbólguvæntingar markaðarins náðu 2% tóku þessar jákvæðu breytingar enda því markaðir fóru að verðleggja í samræmi við mótvægisaðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna.Herskárri afstaða

Það sem ég spáði ekki (en óttaðist vissulega) í desember var að seðlabankinn myndi gera of mikið. Seint í febrúar brugðust stjórnvöld við áberandi bættum tölum í Bandaríkjunum með því að verða herskárri. Eins og við vitum núna hækkaði seðlabankinn, þann 15. mars, vexti á millibankamarkaði um 25 punkta – mörgum mánuðum fyrr en hann hafði gefið í skyn. Og það sem skipti enn meira máli: Nú gaf hann til kynna að búast mætti við frekari hækkunum á árinu 2017.Eru þá markaðir strax farnir að segja okkur að seðlabankinn hafi gert of mikið og verði að mýkja afstöðu sína – eins og hann gerði í febrúar 2016? Eða er þetta bara minni háttar bóla? Við vitum það ekki enn en hættan er enn á ný að þetta verði slæmt fyrir bandarískan hagvöxt.Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.