Viðskipti innlent

Grunur vaknaði þremur árum eftir einkavæðingu Búnaðarbankans

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Davíðsson, fyrrverandi formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu
Ólafur Davíðsson, fyrrverandi formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu
Ólafur Davíðsson, sem var formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu þegar Búnaðarbankinn og Landsbankinn var seldur, segir niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á Búnaðarbankanum koma sér í opna skjöldu. Bæði hann og Jón Sveinsson hæstaréttarlögmaður, sem einnig sat í nefndinni, segja að aldrei hafi hvarflað að þeim áður en skrifað var undir kaupsamning að Hauck & Auf­häuser væri leppur fyrir íslenska kaupendur.

Jón segir hins vegar að á sig hafi runnið tvær grímur þegar kaupendur voru horfnir úr eigendahópi bankans. Hann telur að það hafi verið um þremur árum eftir einkavæðinguna. „Þá fór maður að velta því fyrir sér, heyrðu er eitthvað til í því sem sagt hefur verið að bankinn hafi bara verið þarna til málamynda? Ég neita því ekki að maður fór að velta því fyrir sér á þeim tímapunkti,“ segir Jón.

Bæði Ólafur og Jón Sveinsson segja einkavæðingarnefndina hafa lagt mikið traust á HSBC-bankann, sem var ráðgjafi stjórnvalda í söluferlinu. „Við áttum miklar viðræður við hugsanlega kaupendur á þeim tíma og vorum með sérfræðing á okkar vegum, HSBC-bankann, sem er alþjóðlegt fyirirtæki og ráðgjafi á þessu sviði, svo við lögðum heilmikið traust á þeirra bakvinnu og rannsóknarvinnu í þessu sambandi. Og þeir komu til baka með það að það væri ekkert óeðlilegt eða athugavert við þetta. Þannig að við töldum þetta vera í lagi á þeim tíma,“ segir Jón. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×