Körfubolti

Pippen: Tímabilið hjá Westbrook það besta sem ég hef séð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Scottie Pippen, sem varð sexfaldur NBA-meistari með Chicago Bulls á sínum tíma, segir að tímabilið sem Russell Westbrook hefur átt sé það besta í sögunni.

Westbrook hefur spilað frábærlega með Oklahoma City Thunder í vetur. Leikstjórnandinn snjalli er með þrefalda tvennu að meðaltali í leik; 31,8 stig, 10,6 fráköst og 10,4 stoðsendingar.

Oscar Robertsson er eini leikmaðurinn í sögu NBA sem hefur verið með þrennu að meðaltali í leik á einu tímabili. Nú er nokkuð ljóst að Westbrook bætist í þann hóp í vor.

Í þættinum The Jump á ESPN í gær var rætt um hver ætti skilið að vera valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins og hvort deila ætti þeim verðlaunum milli tveggja leikmanna.

Tracy McGrady, sem var í hópi bestu leikmönnum NBA-deildarinnar fyrr á þessari öld, sagði að tímabilið hans Westbrooks væri mögulega það besta sem sést hafi.

Pippen bætti um betur og sagði að þetta væri besta tímabil sem hann hafi séð hjá einum leikmanni. Stór orð hjá manni sem spilaði í 10 ár með sjálfum Michael Jordan.

Samkvæmt veðbönkum stendur baráttan um að vera valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar á milli fyrrum samherjanna Westbrook og James Harden.

Harden er með 29,3 stig, 8,0 fráköst og 11,3 stoðsendingar að meðaltali í leik fyrir Houston sem er í 3. sæti Vesturdeildarinnar, þremur sætum ofar en Oklahoma.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×