Körfubolti

26. maí 1998 var mikilvægur dagur fyrir framtíð íslenska körfuboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Emelía Ósk Gunnarsdóttir.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson og Emelía Ósk Gunnarsdóttir. Vísir/Samsett

Ritstjórn karfan.is vekur í dag athygli á skemmtilegri staðreynd en svo vill til að bestu ungu leikmenn fyrri hluta Domino´s deildanna í körfubolta eru fædd sama dag og á sama ári.

Emelía Ósk Gunnarsdóttir, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður karlaliðs KR, eru bæði fædd þann 26. maí 1998.

Bæði eru þau í stórum hlutverkum í sínum meistaraflokkum þrátt fyrir ungan aldur og hafa jafnframt verið í meistaraflokksliðinu í nokkur ár. Bæði urðu þau einnig bikarmeistarar með liðum sínum á dögunum.

Emelía Ósk Gunnarsdóttir er með 12,4 stig, 5,2 fráköst og 2,1 stolinn bolta að meðaltali í Domino´s deildinni í vetur en hún spilaði sína fyrstu A-landsleiki í vetur.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson náði að vinna tvo Íslandsmeistaratitla með KR fyrir átján ára afmælið en hann er með 11,8 stig, 3,4 fráköst og 2,3 stoðsendingar að meðaltali í Domino´s deildinni í vetur

Emelía og Þórir eru 18 ára, 9 mánaða og 23 daga gömul í dag og verða bæði verða í eldlínunni með sínum liðum í kvöld.

KR-liðið getur sent lið Þór Akureyrar í sumarfrí og tryggt sér sæti í undanúrslitum Domino´s deildar karla en Emelía Ósk og félagar hennar í Keflavík mæta Snæfell í Stykkishólmi í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar í lokaumferð deildarkeppninnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.